Lífið

Fantasían hverfur þegar flúorljósin kvikna

Gyða Lóa Ólafsdóttir skrifar
Olga hélt dagbók á meðan á starfinu stóð en hún vann á strippstaðnum í þrjá mánuði.
Olga hélt dagbók á meðan á starfinu stóð en hún vann á strippstaðnum í þrjá mánuði. Vísir/Eyþór
Ég skoðaði strippstaðina á netinu og umsagnir um þá á TripAdvisor. Ég sótti svo um hjá nokkrum sem voru með bestu einkunnina og fékk fljótlega símhringingu og var boðuð í atvinnuviðtal. Það var bara mjög venjulegt atvinnuviðtal hjá rekstrarstjóra staðarins. Í kjölfarið var mér boðin vinna á staðnum. Í rauninni var þetta allt eitthvað svo ótrúlega hversdagslegt,“ segir leikkonan og dansarinn Olga Sonja Thorarensen sem er einn höfunda leikverksins STRIPP sem hún hefur unnið ásamt leikhópnum Dance for Me. Verkið verður frumsýnt á sviðslistahátíðinni Everybody Is Spectacular 24. ágúst næstkomandi og er byggt á reynslu Olgu af því að starfa á strippstað.

Strippað fyrir skuld

Staðurinn sem Olga starfaði á var svokallaður topless-bar þar sem strippað var úr öllu nema nærbuxum. Á staðnum störfuðu eingöngu konur og langflestir kúnnarnir voru karlkyns. „Ég eignaðist nokkrar kunningjakonur, eina sem ég held enn þá sambandi við í dag. Þær voru alls staðar að, vinkona mín er frá Japan, svo voru einhverjar frá Púertó Ríkó og margar þýskar líka. Þetta voru alls konar stelpur að koma úr alls konar aðstæðum. Ein var að safna fyrir brúðkaupinu sínu og ein að læra líffræði í háskólanum og vann til þess að borga námið.“

Olga útskrifaðist sem leikkona árið 2012. Strax eftir útskrift fór hún til Berlínar þar sem hún er enn búsett. Í Berlín hóf hún störf með danska leikhópnum SIGNA og setti ásamt fimmtíu manna leikhóp upp verk þar sem hún fór með hlutverk strippara. „Maður fær ekkert borgað ef maður er í starfsnámi þannig að ég endaði á að taka lán frá bankanum og var komin í skuld þegar verkefnið kláraðist. Ég ákvað að fá mér vinnu og fór í nokkrar sem voru ekki vel borgaðar. Þá datt mér í hug að prófa að sækja um vinnu á strippstað í Berlín og sjá hvort þetta væri svona rosalega vel launað eins og fólk talar um og sjá hvort ég gæti greitt þessa skuld með því að vinna fyrir mér sem strippari.“

Og þó að hlutirnir hafi æxlast þannig að starfsreynslan af strippstaðnum sé nú kveikjan að STRIPP þá var starfið ekki hugsað sem rannsóknarvettvangur fyrir leikverk. „Ekki til að byrja með en eiginlega um leið og ég fór að vinna þarna þá fór ég að hugsa um það. Þetta hafði rosalega mikil áhrif á mig. Ég hafði aldrei komið inn á alvöru strippstað áður og hugsaði að ég þyrfti að skrifa niður hugsanir mínar og það sem væri að gerast til þess að sjá hvaða áhrif þetta hefði á mig og hvort ég færi eitthvað að breytast í þessu umhverfi.“

Olgu tókst að safna fyrir skuldinni á þremur mánuðum og hætti störfum á strippstaðnum í kjölfarið. En skyldi hún hafa verið fegin að hætta? „Þetta var ekkert brjálæðislega íþyngjandi á meðan á þessu stóð,“ segir Olga og hugsar sig um. „Ég var einmitt að hugsa í morgun um hvað strippstaður væri í raun og veru. Mér fannst ótrúlega áhugavert þegar ég var að vinna þarna hvernig þetta var smá eins og míkróútgáfa af okkar heimi. Það súmmeraðist dálítið upp hvernig heimurinn virkar einhvern veginn. Peningaskipti, stigveldi og allir að reyna að fá það sem þeir vilja. Það er kannski meira falið í okkar samfélagi. Þarna verður það einhvern veginn svo strípað niður. Einhver lítil útgáfa af okkar heimi.“

Hún segir reynsluna að vissu leyti hafa breytt lífsviðhorfum sínum. „Ég hafði fordóma fyrir þessu áður en ég fór að vinna þarna og ég veit ekki alveg hvað mér finnst um strippstaði enn þá. Ég er kannski smá að gera það upp við mig enn þá og líka með því að gera þetta verk. Þetta breytti aðeins minni aðkomu og ég sá betur að hlutirnir eru oft öðruvísi en maður heldur að þeir séu. Heimurinn er ekki svartur og hvítur.“

Berskjaldaðir kúnnar

„Þegar ég tala um þetta við fólk í Þýskalandi þá verður það ekkert mjög sjokkerað miðað við þegar maður talar um þetta á Íslandi. Ég skil það samt líka, mínar hugmyndir voru líka svolítið ákveðnar og þetta er bara ákveðin mynd sem maður hefur. Síðan er þetta náttúrulega flókið. Þegar maður er femínisti og kona þá auðvitað pælir maður í alls konar. Það togaðist á í mér og ég man eftir að hafa oft hugsað: Get ég verið femínisti og strippari? Má það? Er það hægt? Það fóru líka af stað pælingar um líkamann sem einkaeign. Hvað er það? Má ég gera það sem ég vil við minn líkama eða er þetta flóknara en það? Það fylgja alls konar spurningar sem ég er að reyna að setja fram í þessu verki,“ segir Olga en hún stundar mastersnám í Berlín sem stendur og er að skrifa lokaritgerðina sína sem fjallar um líkamann sem einkaeign, þó í töluvert stærra samhengi.

Líkt og áður sagði voru flestir kúnnar staðarins karlkyns og á öllum aldri, úr öllum áttum. Bæði fastakúnnar og svo menn sem komu bara einu sinni. „Það var ótrúlega merkilegt, ég átti nokkur móment þar sem ég hugsaði að ég vorkenndi þeim og fór að fá einhverja samúð með kúnnunum,“ segir Olga og heldur áfram: „Mér fannst við stelpurnar oft valdefldar. Við vorum saman í liði og allar sameinaðar á að græða pening. Allar saman í því að það sem við værum komnar til þess að gera væri að ná eins miklum pening og við gætum út úr þessum köllum,“ segir Olga en hún segir að marga kúnnana hafi hún upplifað sem einmana. „Þeir komu oft bara að leita að félagsskap og spjölluðu heillengi af því að þá vantaði einhvern til þess að tala við. Þá var mér farið að líða eins og ég væri að notfæra mér þá. Ég var bara að reyna að græða pening á þeim.“

Hversdagsleg móment

„Ég nýtti það allavega smá til þess að byrja með. Að reyna að feika það til þess að meika það,“ segir Olga þegar hún er spurð að því hvort að leiklistarnámið hafi nýst henni. „Mér fannst þetta smá erfitt fyrst. Ég hafði aldrei komið inn á strippstað. Það er ótrúlega skrýtið að koma inn á einhvern stað sem þú hefur aldrei komið inn á en hefur svona ákveðnar hugmyndir um. Sumt er kannski nákvæmlega eins og þú hafðir ímyndað þér að það væri og annað ekki. Ég er pínu feimin að eðlisfari og finnst meira að segja erfitt að fara á svið yfirhöfuð, hvað þá að fara á svið og úr fötunum. Þannig að það hjálpaði mér að fara í karakter.“

Stór hluti af hugmyndinni um stripp og strippstaði er fantasía og erótík en þar þarf líkt og annars staðar að sinna hversdagslegum verkum. Skúra gólf. Þurrka af speglum og þurrka súlur. „Það var ótrúlega áhugavert að sjá þessi hversdagslegu og raunverulegu móment. Eins og til dæmis alltaf áður en þú ferð inn á svið að dansa tekur þú sótthreinsisprey og pappír og þurrkar súluna,“ segir hún og nefnir einnig sem dæmi móment sem skemmtanaþyrstir Íslendingar ættu að kannast við: Lokunartíma skemmtistaða, mómentið þegar ljósin eru kveikt og eftir stendur strípaður veruleikinn. „Fantasían hverfur. Það er ótrúlega skrýtið þegar það gerist inni á strippstað sem er svona ótrúlega mikið leikhús, fantasía og erótík og allt í einu er allt lýst upp með flúorljósum og búið að loka staðnum.“

Heim með hausverk

Olga hélt dagbók á meðan hún starfaði á staðnum og er STRIPP byggt á færslum úr henni. „Ég skrifaði niður pælingar mínar um þetta allt saman og það sem gerðist í þessum aðstæðum sem ég var í. Verkið er byggt á minni sögu en við erum líka að leika okkur að mörkum veruleika og skáldskapar og leyfum okkur að nálgast efnið á einlægan og fyndinn hátt.“

Í verkinu er ekki tekin afstaða með eða á móti slíkri starfsemi og segir Olga það hafa verið ljóst frá upphafi að það yrði ekki gert. „Við föttuðum strax að við vildum ekki setja fram einhverjar skoðanir með eða á móti strippstöðum. Þeir eru náttúrulega ólöglegir á Íslandi og svo veit ég ekki alveg hvað mér sjálfri finnst um þá.“

Hún segir markmið verksins að segja raunverulega sögu á fyndinn og einlægan hátt. Þrátt fyrir að fjalla um þessa afmörkuðu reynslu snerti sagan og verkið þó á ýmiss konar málefnum og nefnir Olga sem dæmi efnahagsástandið, skuldir og stöðu ungra kvenna í nútímasamfélagi.

„Stundum er alveg búið að vera þungt að pæla í þessu og maður kemur heim með hausverk. Við erum búin að ræða takmörkuð hlutverk kvenna í samfélaginu, ólíkt aðgengi að peningum og skuldir sem eru áberandi í íslensku samfélagi í dag.“ Hópurinn nálgast umfjöllunarefni verksins með húmorinn að leiðarljósi og markmiðið er ekki að planta hugmyndum í höfuð áhorfenda. „Við viljum ekki ákveða fyrir áhorfandann hvað honum á að finnast. Frekar velta upp spurningum og skapa umræðu.“

Líkt og áður sagði vinnur Olga verkið með leikhópnum Dance for Me sem skipaður er þeim Pétri Ármannssyni og Brogan Davison. „Ég vissi hvernig þau voru búin að vinna áður með raunveruleikann á sviði og fannst eins og þetta gæti orðið spennandi samstarf,“ segir Olga og bætir við að vinnan við verkið hafi gengið vel þó hún viðurkenni að umfjöllunarefnið sé að mörgu leyti talsvert þungt. „Þó að þetta sé mín persónulega saga þá er þetta ótrúlega flókið efni. Sú staðreynd að konur skuli vinna við að fara úr fötunum fyrir pening og séu jafnvel töluvert betur launaðar við það starf heldur en mörg önnur störf finnst mér vera vandamál en ég vil samt ekki að mínar skoðanir komi of sterkt fram. Ég held að sé áhugaverðara fyrir áhorfendur að þær komi ekki of sterkt í gegn í sýningunni.“

Þegar Olga er spurð að því hvort að hún sjái eftir þessari reynslu svarar hún eftir stuttan umhugsunartíma að hún sjái ekki eftir henni þó hún viti í ekki enn alveg hvað henni þyki um starfið og sé raunar ekki viss um að komast nokkurn tíma að niðurstöðu. „Ég er búin að fara í svo marga hringi með þetta nú þegar þannig að ég er ekki viss um að ég muni nokkurn tíman komast að einhverri lokaniðurstöðu. Þetta er svo flókið og ólík hugmyndafræði sem togast á í manni varðandi þetta. Hugmyndin um frelsi einstaklingsins til þess að gera það sem hann vill og þar af leiðandi gera það sem hann vill við eigin líkama, hugmyndir um siðferði og femínískar pælingar eins og hvort og hvernig þetta hafi áhrif á aðrar konur í heiminum. Þetta er stórt og flókið og ég enda aldrei á einhverju einu sem mér finnst segja mér hvernig þetta á að vera.“

Brogan, Olga og Pétur.Vísir/GVA
Unnið að verkinu undanfarin tvö ár

Hópurinn Dance for Me var stofnaður utan um samnefnda sýningu árið 2013 og hefur hann einnig sett upp verkin Dansaðu fyrir mig og Petru.

Hópurinn er skipaður þeim Brogan Davison og Pétri Ármannssyni. Leikhópurinn er þekktur fyrir frumlega nálgun að sviðsetningu á raunveruleikanum.

Hópurinn hefur frá stofnun sýnt víðsvegar um Ísland og einnig á alþjóðlegum listahátíðum í Noregi, Danmörku, Finnlandi, Þýskalandi, Kanada og Bretlandi.

Þau Olga, Brogan og Pétur hafa síðastliðinn mánuð verið við æfingar hér á landi en vinna við STRIPP hófst fyrir rúmum tveimur árum. Haldið var til æfingadvalar á Ítalíu og einnig var æft í Berlín. Lokavinnsla verksins fer fram hér á landi og verða alls sex sýningar en einnig mun verkið halda á sviðslistahátíð erlendis.

STRIPP verður frumsýnt á sviðslistahátíðinni Everybody Is Spectacular þann 24. ágúst næstkomandi í Tjarnarbíói.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×