Viðskipti innlent

Von á fleiri skráningum á First North á árinu

Magnús Harðarson, forstöðumaður viðskiptasviðs Kauphallar Íslands.
Magnús Harðarson, forstöðumaður viðskiptasviðs Kauphallar Íslands. Mynd/Kauphöllin
Í gær voru hlutabréf í Iceland Seafoods tekin til viðskipta á First North Iceland. Þetta er fyrsta skráningin á First North markað síðan árið 2011. Magnús Harðarson, forstöðumaður viðskiptasviðs Kauphallar Íslands, segist eiga von á fleiri skráningum á First North á árinu.

„Það sem mér finnst ánægjulegt er að þetta er fyrsta frumskráning félags tengt sjávarútvegi í þrettán ár. Við höfum lengi vonast eftir skráningum félaga sem eru tengd grunnatvinnuvegum landsins," segir Magnús. HB Grandi fluttist á Aðalmarkaðinn fyrir tveimur árum, en var fyrir á First North.

„Við erum í samtali við nokkur önnur fyrirtæki sem hafa áhuga á að koma inn á markaðinn, án þess að það sé komið á neitt lokastig. En við erum að ræða við fyrirtæki sem eru að skoða þetta af alvöru. Ég er bjartsýnn á fleiri skráningar á árinu þó ekki sé hægt að fullyrða," segir Magnús og segist eiga von á fleiri skráningum á árinu.

Magnús telur að tvennt spili inn í aukin áhuga á skráningum. Annars vegar breyting á lífeyrissjóðalögum sem opnaði fyrir skráningar á markaðstorgum eins og First North og svo undanþága til gerðar lýsingar fyrir smærri útboð og hækkun fjárhæðaþröskuldsins sem undanþágan nær til. „Markaðsumhverfið er alveg klárlega að batna, þetta er að ýta við fyrirtækjunum alveg klárlega," segir Magnús.

Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu þann 26. maí.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×