Innlent

Segir ummæli forstjóra Vinnueftirlitsins um kranaslysið afar sérstök

Birgir Olgeirsson skrifar
Kraninn umræddi sem undirverktaki Þarfaþings var með á leigu.
Kraninn umræddi sem undirverktaki Þarfaþings var með á leigu. Vísir/GVA
„Mér finnst sérstakt ef menn eru komnir með niðurstöðu í máli nokkrum klukkustundum eftir að það gerðist,“ segir Eggert Jónsson, framkvæmdastjóri verktakafyrirtækisins Þarfaþings, um ummæli Eyjólfs Sæmundssonar, forstjóra Vinnueftirlitsins, um atvikið í miðbæ Reykjavíkur í gær þegar byggingarkrani hrundi á nýbyggingu við Bæjarins bestu.

Eyjólfur sagði í samtali við Vísi í gær grunur leiki á að átt hafi verið við öryggisbúnað byggingarkranans þannig að hann myndi ekki slá út þegar byrðin væri orðin of þung.

Það er undirverktaki á vegum Þarfaþings sem var með þennan umrædda krana á leigu en Eggert hjá Þarfaþingi segir þessi ummæli forstjóra Vinnueftirlitsins sérstök.

„Mér þykir réttast að lofa rannsóknaraðilum að klára málið, gera skýrslu, áður en þeir fara að tjá sig um niðurstöðu málsins,“ segir Eggert en vildi að öðru leyti ekki tjá sig um málið að svo stöddu.

Kraninn í Hafnarstrætinu um klukkan korter í tólf í morgun.Vísir/BS
Sagði þekkt að menn reyni að svindla á öryggisbúnaðinum

Eyjólfur sagði við Vísi í gær að öryggisbúnaðurinn virki þannig að hann eigi að slá út þegar verið er að lyfta of þungu hlassi og þannig koma í veg fyrir að hægt sé að lyfta hlassinu.

„Það er þekkt að menn séu að reyna að svindla á þessu og lyfta meiru en kraninn lyftir. Í þessu tilviki leikur grunur á um að slíkt hafi átt sér stað og lögreglan er að rannsaka það,“ sagði Eyjólfur sem segir að málið sé litið mjög alvarlegum augum.

Ótrúlegt að enginn hafi slasast

Jóhann Karl Þórisson, aðstoðaryfirlögregluþjónn á höfuðborgarsvæðinu, sagði í samtali við Vísi í gær að það væri með ólíkindum að enginn hafi slasast.

Kraninn féll yfir á planið fyrir framan Bæjarins bestu þar sem vanalega er talsvert að fólki að bíða í röð eftir pylsunum frægu. Í gær voru hins vegar bara tveir við vagninn. Sá sem var að bíða eftir að afgreiðslumaðurinn lauk við að setja á pylsu sem hann hafði pantað var einskis var fyrr en sá sem var næstur í röðinni hrópar á hann og afgreiðslumanninn að vara sig því kraninn væri að hrynja og náðu viðskiptavinirnir að koma sér undan en afgreiðslumaðurinn Skúli Þórðarson var hins vegar inni í pylsuvagninum sem slapp ótrúlega vel. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×