Enski boltinn

Arsenal tapaði í fyrsta sinn síðan í ágúst | Sjáðu mörkin úr leikjum gærdagsins

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Leikmenn Everton fagna með Ashley Williams (nr. 5) sem skoraði sigurmarkið gegn Arsenal.
Leikmenn Everton fagna með Ashley Williams (nr. 5) sem skoraði sigurmarkið gegn Arsenal. vísir/getty
Sextánda umferð ensku úrvalsdeildarinnar hófst í gær með tveimur leikjum.

Umferðin klárast svo í kvöld með átta leikjum.

Eftir 14 leiki í röð án taps laut Arsenal í lægra haldi fyrir Everton á útivelli. Lokatölur 2-1, Everton í vil.

Arsenal byrjaði leikinn mun betur og Alexis Sánchez kom Skyttunum yfir á 20. mínútu þegar skot hans beint úr aukaspyrnu fór í Ashley Williams og inn.

Everton gafst ekki upp og hægri bakvörðurinn Seamus Coleman jafnaði metin mínútu fyrir hálfleik eftir sendingu frá vinstri bakverðinum, Leighton Baines.

Það var svo Williams sem tryggði Everton öll þrjú stigin þegar hann skallaði hornspyrnu Ross Barkley í netið, fjórum mínútum fyrir leikslok. Þetta var fyrsta mark Williams fyrir Everton.

Phil Jagielka, fyrirliði Everton, fékk að líta sitt annað gula spjald og þar með rautt í uppbótartíma. Everton hélt út en þurfti þó að bjarga tvisvar á línu í lokasókn Arsenal.

Í hinum leik gærkvöldsins vann Bournemouth 1-0 sigur á Leicester City. Englandsmeisturunum var þar með skellt aftur niður á jörðina eftir sigurinn frábæra á Manchester City á laugardaginn.

Marc Pugh skoraði eina markið á Vitality vellinum í gær á 34. mínútu. Pugh var í fyrsta sinn í byrjunarliðinu á tímabilinu og þakkaði traustið með marki.

Eftir sigurinn er Bournemouth í 8. sæti deildarinnar en Leicester er í því fjórtánda.

Mörkin úr leikjunum tveimur má sjá hér að neðan.


Tengdar fréttir

Koeman segir Wenger alltaf væla yfir dómgæslunni

Ronald Koeman, knattspyrnustjóra Everton, kom það ekkert á óvart að Arsene Wenger, stjóri Arsenal, hafi kvartað undan dómgæslunni eftir að Everton vann Arsenal í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×