Innlent

Fentanýl hundrað sinnum sterkara en morfín

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Kolbeinn Guðmundsson yfirlæknir Lyfjastofnunnar segir Fentanýl mjög hættulegt sé það í röngum höndum.
Kolbeinn Guðmundsson yfirlæknir Lyfjastofnunnar segir Fentanýl mjög hættulegt sé það í röngum höndum. VÍSIR/SKJÁSKOT
Yfirlæknir Lyfjastofnunar segir mikið áhyggjuefni að verið sé að misnota verkjalyfið Fentanýl hér á landi. Lyfið er eitt sterkasta verkjalyf á markaðnum en það er hundrað sinnum sterkara en morfín og fimmtíu sinnum sterkara en heróín. 

Í gær greindi Stöð 2 frá því að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu rannsakaði hvort andlát ungs manns aðfaranótt sunnudags tengist neyslu á lyfinu Fentanýl. Annar ungur maður missti meðvitund sömu nótt og leikur grunur á að það tengist neyslu á sama lyfi.

Misnotkun Fentanýls, sem er afar sterkt verkjalyf, hefur færst í aukana undanfarið og þá sérstaklega í Bandaríkjunum þar sem rekja má tugi dauðsfalla til notkunar lyfsins síðustu mánuði. Umræðan komst í hámæli þegar greint var frá því að poppstjarnan Prince hefði látist af ofneyslu Fentanýls í maí síðastliðnum. 

En er mikið af Fentanýli í umferð á Íslandi?

„Við náttúrulega höfum engar upplýsingar um svarta markaðinn, en miðað við innflutningstölur á löglegu lyfi þá eru ekki merki um aukningu umfram önnur lyf,“ segir Kolbeinn Guðmundsson yfirlæknir hjá Lyfjastofnun.

Lyfið er sérlega hættulegt sökum þess hve sterkt það er. „Þetta er eitt sterkasta verkjalyf sem er til á markaðnum. Fentanýl er um það bil hundrað sinnum sterkara en morfín, ef við tökum milligramm fyrir milligramm af lyfi, og sirka fimmtíu sinnum sterkara en heróín meira að segja. Það segir sig sjálf að þetta er mjög öflugt og þar af leiðandi hættulegt lyf,“ segir hann.

Lyfið er lyfseðilsskylt en tvö dauðsföll hér á landi í ár má rekja til fentanýls að frátöldu atvikinu síðustu helgi.

„Þetta er mjög gott verkjalyf en hættulegar aukaverkanir. Það getur valdið mikilli hömlun á öndun upp í heila. Við stóra skammta þá hreinlega hættir einstaklingurinn að anda og fer þar af leiðandi í hjartastopp,“ segir Kolbeinn Guðmundsson. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×