Lífið

Maður þarf að vera soldið vondur

Magnús Guðmundsson skrifar
Tyrfingur Tyrfingsson leikskáld á Nýja sviði Borgarleikhússins þar sem Auglýsing ársins verður frumsýnd í kvöld eftir langa og dramatíska meðgöngu.
Tyrfingur Tyrfingsson leikskáld á Nýja sviði Borgarleikhússins þar sem Auglýsing ársins verður frumsýnd í kvöld eftir langa og dramatíska meðgöngu. Visir/Ernir
Auðvitað saknar fólk aðeins þess tíma þegar mátti leggja stund á smá einelti. Það er svo rosalega skapandi og skemmtilegt að búa til uppnefni og svoleiðis,“ segir Tyrfingur Tyrfingsson leikskáld og glottir grallaralega enda skín af honum góðmennska og viðkunnanlegheit. „Við erum bara spendýr sem þurfa að læra að veiða sér til matar og ef það er eitthvert frík í hópnum þá verður að láta það vita. Það er bara kurteisi því það verður að vera einhver framgangur.“

Skoðum rótina

Tyrfingur er á meðal eftirtektarverðari leikskáldum yngri kynslóðarinnar en hann vakti fyrst athygli með verkinu Skúrinn á sléttunni og í framhaldinu Bláskjá sem var hans fyrsta verk í fullri lengd. Fram undan er nú frumsýning í Borgarleikhúsinu, þar sem fyrri verk Tyrfings voru einnig frumsýnd, á leikritinu Auglýsing ársins í leikstjórn Bergs Þórs Ingólfssonar. Tyrfingur segir að óneitanlega sé hann aðeins á þessum slóðum spendýranna í nýja verkinu. „Ég var einmitt að horfa á rennsli í gær og þá hugsaði ég: Já, þetta eru spendýr. Það er nokkuð ljóst.“

Tyrfingur segist þó ekki vera þannig höfundur sem leggur til atlögu við nýtt verk með það að markmiði að skrifa um eitthvert sérstakt málefni. „Nei, eiginlega mjög langt í frá. Svona eftir á að hyggja þá velti ég því frekar fyrir mér hvort ég hafi verið að skrifa um þetta allan tímann án þess að gera mér grein fyrir því. En það kemur í rauninni langsíðast um hvað þetta er. Þetta er meira þannig að maður er að reyna að skoða eitthvað og skilja sem maður skilur ekki. Í Auglýsingu ársins er ég t.d. að skoða manneskjuna og af hverju hún hagar sér eins og hún gerir. Per­sónurnar í verkinu eru allar mjög friðlausar. Friðlausar og grimmar en þetta gamanleikrit er þannig að þær eru soldið fyndnar en rótin í þeim öllum er það sem við erum að reyna að skoða.“

Visir/Ernir
Finnum til okkar

Sem leikskáld er Tyrfingur stöðugt að rannsaka persónueinkenni og hann segir að eitt helsta persónueinkenni Íslendinga sé að finna til sín af minnsta tilefni. „Ég þekkti mann sem var að vinna á bensínstöð þegar vaktstjórinn fór í aðgerð á mjöðm. Þá var þessi maður gerður að vaktstjóra rétt á meðan og hann bara skildi við konuna sína. Framinn og valdið bara fóru með hann og við erum soldið svona. Þetta er eins og með nemendur Vigdísar Finnbogadóttur sem er svona hofmóðugt fólk sem skrifar passív-agressívar greinar um kærleikann og er alltaf að messa yfir manni. Það felst í því ákveðið friðleysi að reyna stöðugt að búa til frið í öðrum – halda öðrum í skefjum. Það er mikið fjallað um markaleysi annarra, mikið talað um gerendur og ljóta kallinn.

Það er þessi sami galli í pólitík og leikhúsi. Í leikhúsi er til fólk sem hefur í rauninni engan áhuga á leikhúsi heldur áhuga á sér í leikhúsinu. Það sama gildir um stjórnmálin. Það er fólk sem hefur engan áhuga á því að gera samfélagið betra heldur hefur áhuga á sér í stjórnmálum. Þess vegna er svo gaman að vera að frumsýna í svona sviðsetningarástandi í samfélaginu. Það er bara hver sviðsetningin sem rekur aðra. Þá fara líka að rokseljast miðar í leikhúsið og mér finnst það soldið flott að fólk skuli tengja og leita til okkar.“

Manngerð rómantík

Tyrfingur segir að það sé nóg gert af því að predika yfir fólki í samfélaginu og því eigi slíkt ekkert erindi í leikhúsið. „Það er alltaf verið að þvinga upp á okkur væmni og tilfinningasemi. Reyna að stýra fólki með væmni og að koma fyrir í því samviskubiti og það er eins og heilu miðlarnir snúist um það. Kannski er það af því að mamma gerði svo mikið af því við mig að ég kann mjög illa við þetta. Væmnin er passív-agressív í eðli sínu, hún er óheiðarleiki á sumarkjól, aldrei sönn. Hana er ekki heldur að finna í náttúrunni þannig að hún er búin til. Manngerð rómantík. Hugmynd sem við þurfum að fara að vara okkur á.

Þessi yfirborðsmennska er eitt af því sem við erum að takast á við í þessu verki sem gerist á auglýsingastofu en ég vann einmitt á slíkri stofu. Í verkinu kemur kúnni inn á þessa auglýsingastofu, sem er búin að vera úr tísku mjög lengi þótt þar sé allt nýtt og flott, og biður fólkið um að gera fyrir sig auglýsingu. Það grípur um sig slík örvænting og friðleysi að þau stökkva á verkefnið án þess að vita hvað þau eiga að auglýsa. Svo spyr einhver að því hvað eigi að auglýsa og fær bara svarið: Hvaða dónaskapur er þetta? Þetta snýst ekkert um hvað við erum að auglýsa heldur hvernig við auglýsum það. Það er svona soldið farsinn í þessu. En ég held að fólk geti lesið þetta verk mikið til út frá því sem er í gangi í samfélaginu núna og það finnst mér mjög skemmtilegt án þess að hafa ætlað mér slíkt.“

Visir/Ernir
Heima að tröstespísa

Tyrfingur segir að það sé óneitanlega búið að vera undarlegt að horfa á atganginn í stjórnmálunum að undanförnu og sem leikskáld hefur hann þetta að segja: „Þetta er soldið eins og að horfa á Ibsen-leikrit en maður skilur ekki neitt. Ibsen á óskiljanlegu tungumáli. Endalaust plott og vesen og bitrar persónur. En ég verð að játa að mér finnst þetta gaman því ég hef alltaf gaman af sviðsetningu sama hvar hún er og þó að fólk sviðsetji sjálft sig þá þýðir það ekki endilega að það sé að ljúga, því fólk setur sig alltaf í karakter. En eins og ég horfi á þetta þá finnst mér reyndar að margir mættu kynna sér klassíkina betur og þá gætu þeir orðið aðeins betri í þessu. Það er eiginlega pínlegast hvað þetta er vond sviðsetning og mikið melódrama. Við óttuðumst aðeins að Auglýsing ársins væri aðeins of mikil sýra en eftir að hafa séð fréttir um fyrirhugaðar geimferðir þessara snillinga þarna þá hurfu þær áhyggjur eins og dögg fyrir sólu.“

Þrátt fyrir velgengni Bláskjás, síðasta verks Tyrfings, sem gekk afskaplega vel þá segist hann ekki finna fyrir mikilli pressu. „Kannski bara vantar eitthvað í mig. Málið er að það kemur enginn eins brjálæðislega illa fram við mig og ég sjálfur. En það er líka vel haldið utan um mig í Borgarleikhúsinu og þar er skilningur á því að leikskáld þurfa á ritstjórn að halda eins og önnur skáld. En af því að ferlið er erfitt þá brotna ég saman oft á leiðinni, er bara heima að tröstespísa og á rosalega bágt, því þarna er ég svakalega dramatískur. En annars er ég mjög góður í að fela það enda loka ég mig bara af.

Þarf að vera soldið vondur

En þegar maður er búinn að fara í gegnum langt átakaferli við að skrifa þá gerir það líka að verkum að maður er með leikrit í höndunum þegar kemur að æfingatímabilinu. Þá þarf ekki að vera að ráðast í einhverjar björgunaraðgerðir. Ég er hræddur um að í íslensku leikhúsi þyrftum við oft að gefa okkur meiri tíma. Vegna þess að þegar maður er að eiga við eitthvað sem er svona gamalt í forminu þá eru reglurnar margar og ef maður ætlar að brjóta þessar reglur þá þarf maður að vita hvað það er sem maður er að brjóta. Átta sig á því á móti hverju maður er að vinna. Ef þú ætlar ekki að setja klæmax þá þarftu að setja anti-klæmax.

Á Íslandi erum við leikhúslega svo föst í klisjunni um að þetta snúist um það að segja sögu. Þessi sögudýrkun stendur okkur aðeins fyrir þrifum. Það er kannski ljótt að segja þetta en amatörar elska epík og það er oft að þvælast fyrir fólki og þess vegna set ég fyrirvara við þá sem rumpa hlutunum af. Þú þarft frekar að þræða þig í gegnum hlutina því að jafnvel í aðeins einni senu þar sem tvær manneskjur eru að tala saman en fleiri í rýminu þá þarf líka að skrifa og skilja hvað hinir eru að hugsa. Að mörgu leyti er þetta því bara handavinna eða eins og Bergur leikstjóri hefur sagt þá er þetta níutíu prósent handverk. Að skrifa leikrit er að skrifa marglaga texta en þá þarf maður að gæta sín á því að fólk er ekkert rosalega interessant fyrr en það er komið upp að vegg. Sem höfundur þarf maður því að vera soldið vondur við sínar persónur og ýta þeim stöðugt nær brúninni, koma þeim í klandur og gefa sér tíma til þess að vinna sig til baka.

Æðislegt að ljúga

Ég verð að játa að ég mynda persónulegt samband við mínar persónur. Ég var t.d. einn í Póllandi með þeim í þrjár vikur og þetta er ekki góður félagsskapur. Þannig að ég gerði talsvert af því að hringja í mömmu, hún vinnur á geðsviðinu, því þetta er hættulegt fólk. Ég var því rosalega feginn þegar ég var búinn að skila skömminni og aumingja leikararnir sátu uppi með hana. Þá breyttust líka sumar persónurnar, t.d. kom ein út úr skápnum og ég var auðvitað alveg miður mín eins og allir feður, en það var samt ekki mitt vandamál lengur.Fyrsta rennslið reyndist svo auðvitað vera alveg hræðilegt. Ég hugsaði bara um að þetta væri sem sagt jarðarförin á mínum ferli. Svona lýkur þessu, allt í góðu, þetta er búið að vera frábært. En svo kom næsta rennsli og þá byrjaði þetta að smella.

En ég valdi mér þetta hlutskipti að skrifa leikrit svo ég get ekkert kvartað. Ég held reyndar að það hafi gerst eitthvað í uppeldi mínu sem orsakar þetta. Mamma, sem hefur alltaf gert mikið af því að lesa og svona, var svo áhugasöm um manneskjur. Hún er geðhjúkka og hefur alltaf spáð í það hvernig fólk talar og annað slíkt þannig að það var alltaf mikil umræða um mannlega hegðun inni á heimilinu. Ein af mínum fyrstu minningum er frá því ég var svona fimm ára og mamma spurði mig hvar ég hefði verið. Þá horfði ég framan í hana og sagði: „Ég var í sjoppunni.“ Ég var að ljúga og hún leyfði mér það. Það var æðisleg tilfinning. Rússið að ljúga einhverju og komast upp með það er svo geggjað. Ætli það hafi ekki verið rótin að þessu, að finna hvað það er æðislegt að búa til veruleika sem hefur aldrei átt sér stað. Það er dásamleg tilfinning.“

Viðtalið birtist fyrst í Fréttablaðinu 16. apríl.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×