Viðskipti innlent

Íslensk tæknifyrirtæki á Slush Asia í Japan

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Nýjasta sýndarveruleikatækni prófuð á Slush Asia ráðstefnunni í Tókýó í Japan.
Nýjasta sýndarveruleikatækni prófuð á Slush Asia ráðstefnunni í Tókýó í Japan. Mynd/Slush Media-Petri Anttila
Japanar vilja taka upp umbúnað við sprotafyrirtæki að norrænni fyrirmynd. Tækniráðstefnan Slush Asia í Tókýó í Japan hófst í gær og lýkur í dag. Ráðstefnan er nú haldin í Japan í annað sinn.

Meðal þátttakenda er íslenska frumkvöðlasetrið Icelandic Startups (Klak-Innovit) og svo Nordic Innovation, sem starfar undir hatti Norræna ráðherraráðsins.

Þá eru tvö íslensk frumkvöðlafyrirtæki á meðal þeirra tíu sem kynna starfsemi sína á ráðstefnunni, leikjafyrirtækið Solid Clouds og sýndarveruleikafyrirtækið Aldin Dynamics.

„Japanar geta lært mikið af norrænu fyrirtækjunum, bæði þegar kemur að nýsköpun og líka þegar kemur að fjármögnun, sérstaklega á alþjóðlega vísu, sökum smæðar skandínavíska markaðarins,“ segir Kolbeinn Björnsson, ráðgjafi hjá Cooori.

Kolbeinn hefur unnið í Japan í meira en 15 ár og komið að stofnun margra fyrirtækja. 

„Norrænu sprotafyrirtækin sem kynntu sig hér í gærkvöldi höfðu margt fram að færa. Þetta var mjög tilkomumikið,“ segir Kolbeinn um sýninguna.

Í kynningarefni Slush Asia kemur fram að á síðasta ári hafi 3.000 manns sótt ráðstefnuna, þar á meðal fulltrúar 250 sprotafyrirtækja, 100 fjárfestar og 200 blaðamenn. Í ár eru þátttakendur um 4.000 talsins.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 14. maí






Fleiri fréttir

Sjá meira


×