Erlent

Tyrkir kalla sendiherra sinn heim frá Þýskalandi

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Armenar fylgdust með atkvæðagreiðslunni á þýska þinginu í gær og felldu sumir tár þegar niðurstaðan varð ljós.
Armenar fylgdust með atkvæðagreiðslunni á þýska þinginu í gær og felldu sumir tár þegar niðurstaðan varð ljós. vísir/EPA
Þýska þingið samþykkti í gær ályktun þar sem þjóðarmorð Tyrkja á Armenum á árum fyrri heimsstyrjaldarinnar var fordæmt.

Þingmennirnir létu harða gagnrýni tyrkneskra stjórnvalda ekki stöðva sig, en Tyrkir hafa kallað sendiherra sinn heim og Recep Tayyip Erdogan hefur sagt að samskipti ríkjanna muni nú verða afar erfið.

„Tyrkland brást við eins og búast mátti við,“ sagði Frank-Walter Steinmeier, utanríkisráðherra í stjórn Angelu Merkel, í viðtali við útvarpsstöðina Deutsche Welle.

„Ég vona að við getum á næstu dögum séð til þess að viðbrögðin verði höfð í hófi,“ bætti hann við.

Tyrkir í Þýskalandi mótmæla ályktun þingsins líka harðlega.

Tyrkir hafa aldrei viljað viðurkenna að þjóðarmorð hafi verið framið, heldur hafi verið mikið mannfall á báða bóga í átökum milli Tyrkja og Armena í Tyrklandi.

Í Tyrklandi hefur fólk ítrekað fengið fangelsisdóma fyrir að minnast á þjóðarmorð í þessu samhengi.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 3. júní.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×