Viðskipti innlent

Nói útskýrir dýrari páskaegg

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/Stefán
Páskaegg frá Nóa Síríus hafa hækkað í verði um níu prósent á milli ára. Alþýðusamband Íslands kallaði í vikunni eftir því að verðhækkun á páskaeggjum væri útskýrð. Ljóst væri að eggin væru að hækka í verði á sama tíma og verð á kakóbaunum og sykri lækkaði og gengi krónunnar styrktist.

Í tilkynningu frá Nóa Síríus er verðhækkunin útskýrð. Fyrirtækið kaupir ekki kakóbaunir til framleiðslunnar heldur afurðir sem unnar eru úr þeim. Verð á þeim afurðum fer ekki endilega saman við verð kakóbaunarinnar. Þá eru gerðir framvirkir samningar til nokkurra mánaða sem gerir samanburð í tíma torveldari.

Kristján Geir Gunnarsson, Framkvæmdastjóri markaðs - og sölusviðs Nóa Síríus.
„Þegar ákvörðun er tekin um verð höfum við til hliðsjónar verðþróun á lykilhráefnum og skal upplýst að undanfarið ár hefur verð hækkað á bilinu 4% til 21%. Frá þessu er ein undantekning og það er sykurverð sem hefur lækkað um 3%, en rétt er að geta þess að sykur er ekki sérlega stór liður í kostnaðarverði súkkulaðis,“ segir í tilkynningunni.

„Styrking gengis hjálpar auðvitað til, en nær ekki að vega upp kostnaðarhækkanirnar. Þá vegur vinnuaflskostnaður þungt í framleiðslu á páskaeggjum og er ekki annað hægt en að taka þann kostnað með í reikninginn.“

Auk þess segir að laun hafi hækkað umtalsvert á árinu eða um liðlega tólf prósent. Þá sé ógetið um verð á flutningum og ýmsum öðrum kostnaðarliðum sem einnig hafi hækkað.

„Samanlagðar kostnaðarhækkanir hafa orðið þess valdandi að Nói Síríus hefur talið óhjákvæmilegt annað en að hækka afurðaverð sitt um sem nemur 9% á einu ári.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×