Fótbolti

Bónusgreiðslur til landsliðsmanna enn óákveðnar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Geir Þorsteinsson segir að það liggi enn ekki fyrir með hvaða hætti bónusgreiðslum verði háttað til landsliðsmanna.
Geir Þorsteinsson segir að það liggi enn ekki fyrir með hvaða hætti bónusgreiðslum verði háttað til landsliðsmanna. Samsett mynd/Vísir/Getty
Geir Þorsteinsson, formaður Knattspyrnusambands Íslands, segir að það sé enn til skoðunar með hvaða hætti árangurstengdum greiðslum verður háttað til leikmanna íslenska karlalandsliðsins í tengslum við Evrópumótið í knattspyrnu í sumar.

„Sumu er lokið og sumu ekki,“ sagði Geir en samkvæmt heimildum Vísis er búið að semja um þá upphæð rennur til leikmanna fyrir að komast í lokakeppni EM. Geir vildi hins vegar ekki staðfesta það.

„Þessu ferli er ekki að öllu leyti lokið en það er alveg ljóst að leikmenn munu fá afreksgreiðslur fyrir að taka þátt í lokakeppni,“ segir Geir enn fremur.

Eins og kom fram á ársþingi KSÍ í síðasta mánuði mun KSÍ fá átta milljónir evra, jafnvirði 1120 milljóna íslenskra króna. Áætlaður kostnaður KSÍ af þátttöku Íslands á EM er 600 milljónir króna.

Geir staðfesti að leikmenn muni einnig fá árangurstengdar greiðslur á mótinu í sumar en vildi ekki upplýsa hvernig slíkt afrekskerfi yrði byggt upp eða hvaða fjárhæðir væru í spilinu. „Þetta er enn til skoðunar,“ sagði Geir.

Ísland er í F-riðli á EM í Frakklandi sem hefst 10. júní. Fyrsti leikur Íslands verður gegn Portúgal í St. Etienne fjórum dögum síðar en Austurríki og Ungverjaland eru einnig í sama riðli. Tvö efstu liðin í riðlinum fara áfram í 16-liða úrslitin og fjögur af þeim sex liðum sem hafna í þriðja sæti riðlanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×