Viðskipti innlent

Ríkið getur fengið yfir hundrað milljarða í arð

Ingvar Haraldsson skrifar
Hagnaður bankanna þriggja var 106,8 milljarðar á síðasta ári. Þetta er mesti hagnaður á einu ári frá hruni.
Hagnaður bankanna þriggja var 106,8 milljarðar á síðasta ári. Þetta er mesti hagnaður á einu ári frá hruni.
Svigrúm er til að greiða allt að 120 milljarða króna í arð út úr viðskiptabönkunum þremur. Þar af er svigrúm til að greiða allt að 110 milljarða út úr ríkisbönkunum, Íslandsbanka og Landsbankanum. Þetta kom fram í máli Hrafns Steinarssonar, sérfræðings hjá Greiningardeild Arion banka, á kynningu á nýrri efnahagsspá bankans í gær.

„Stöðugleikaframlög slitabúanna breyta töluverðu fyrir ríkið og þar vegur þungt eignarhlutur ríkisins í bönkunum og þær arðgreiðslur sem renna til ríkisins,“ segir Hrafn. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sagði við Vísi í gær að hann vilji draga úr stærð bankakerfisins áður en farið verði að selja hluti úr ríkisbönkunum. Þá hafi arður ríkisins af bönkunum verið meiri en búist hafi verið við.

Hrafn segist þó ekki eiga von á því að allt svigrúmið verði nýtt til að greiða arð á þessu ári.

Hrafn Steinarsson, sérfræðingur hjá Greiningardeild Arion banka.
Samanlagt eigið fé bankanna þriggja var 669 milljarðar í árslok. Hrafn bendir á að svigrúmið hjá Landsbankanum og Íslandsbanka sé meira en hjá Arion banka þar sem eiginfjárhlutfall þeirra sé ríflega 30 prósent en 24,2 prósent í tilfelli Arion banka. „Aftur á móti þarf að horfa líka til lausafjárhlutfalls þegar er verið að meta arðgreiðslugetu bankanna,“ segir Hrafn.

Ef miðað sé við að greiddur verði arður þannig að eiginfjárhlutfall bankanna lækki í 23 prósent geti Landsbankinn greitt út um 60 milljarða í arð og Íslandsbanki um 50 milljarða en Arion banki um 10 milljarða að sögn Hrafns, en 23 prósenta eiginfjárhlutfall sé dæmi um heppilegt eiginfjárhlutfall til lengri tíma.

Til stendur að Landsbankinn greiði 28,5 milljarða í arð og Íslandsbanki 10,3 milljarða í arð á þessu ári. Þannig muni tæplega fjörutíu milljarðar króna renna til ríkisins. Með þessu móti sé ríkið þegar búið að fá meirihlutann af þeim 71 milljarði sem gert var ráð fyrir í fjárlögum að fengist fyrir sölu á 31,2 prósenta hlut í Landsbankanum.


Tengdar fréttir

Högnuðust um 106,8 milljarða

Viðskiptabankarnir þrír högnuðust verulega á síðasta ári, hagnaðurinn jókst hjá öllum nema Íslandsbanka.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×