Viðskipti innlent

Greiðslustaða ríkissjóðs batnað á síðustu árum

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Tekjujöfnuður ríkissjóðs var jákvæður um 30,4 milljarða króna á árinu 2015.
Tekjujöfnuður ríkissjóðs var jákvæður um 30,4 milljarða króna á árinu 2015. vísir/valli
Tekjujöfnuður ríkissjóðs var jákvæður um 30,4 milljarða króna á árinu 2015 sem er nokkuð  betri niðurstaða en gert hafði verið ráð fyrir. Innheimtar tekjur jukust um 10,4 milljarða króna milli ára en greidd gjöld lækkuðu um tæpa 20 milljarða séu endurgreiðslur vegna verðtryggðra húsnæðislána talin með.

Þetta kemur fram í nýrri Hagsjá Landsbankans. Þar segir að greiðsluuppgjör ríkissjóðs gefi upplýsingar um afkomu hans á grundvelli innheimtra tekna og greiddra gjalda. Uppgjör ríkissjóðs hafi á síðustu árum einkennst töluvert af óreglulegum liðum og einskiptisliðum ásamt bókhaldslegum færslum sem hafi mikil áhrif á endanlega afkomu. „Þótt greiðsluuppgjör endurspegli ekki rekstrarniðurstöðu að fullu gefur það þó góða mynd af raunverulegri stöðu og breytingum milli ára,“ segir í Hagsjánni.

Á árinu 2010 var tekjujöfnuður ríkissjóðs neikvæður um tæpa 70 milljarða króna á árinu 2010 og jákvæður um rúma 30 milljarða á árinu 2013. Sem hlutfall af tekjum ríkissjóðs hefur tekjuafgangurinn farið úr því að vera neikvæður um 15 prósent af tekjum 2010 upp í að vera jákvæður um 4,5 prósent af tekjum á árinu 2015.

Skatttekjur og tryggingagjöld eru stærstu tekjuliðir ríkissjóðs og nema tekjur af þeim um 90 prósent af innheimtum tekjum í heild. Skattar á tekjur og hagnað voru tæplega 228 milljarðar sem er 5,3 prósent aukning frá fyrra ári. Þar af jókst tekjuskattur einstaklinga um tæp 8% milli ára. Tekjuskattur lögaðila dróst hinsvegar saman um 4,5 próent milli ára sem er aðallega vegna minni tekna af sérstökum fjársýsluskatti.

„Heildarniðurstaðan er því sú að greiðslustaða ríkissjóðs hefur farið batnandi á síðustu árum og tekjujöfnuður batnað jafnt og þétt.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×