Innlent

Vilja hækka laun stuðningsfjölskyldna um 88 prósent

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Ár eftir ár eru biðlistar eftir stuðningsfjölskyldum langir
Ár eftir ár eru biðlistar eftir stuðningsfjölskyldum langir vísir/vilhelm
159 börn eru á biðlista í Reykjavík eftir stuðningsfjölskyldu. Erfitt er að fá fólk í störfin og því hefur verið lagt til að launin hækki um 88 prósent. Þrátt fyrir að hækkun verði samþykkt munu greiðslurnar ekki ná lágmarks launataxta á vinnumarkaði.

Af þeim börnum sem eru á biðlistanum eru um níutíu með félagslegan vanda og um sjötíu börn með fötlun og eiga því lagalegan rétt á stuðningsfjölskyldu. Lág laun eru helsta ástæða þess að erfitt er að ráða fólk í störf stuðningsfjölskyldna.

Samkvæmt lögum um málefni fatlaðs fólks fær stuðningsfjölskylda að meðaltali fimmtán þúsund krónur á sólarhring, fyrir skatt.

„Því miður hafa launin ekki verið nægilega góð fyrir störfin, þau hafa verið of lág. Og við erum að vinna tillögu að því að hækka þau,” segir Sigurbjörg Fjölnisdóttir, deildarstjóri stuðningsþjónustu hjá velferðarsviði borgarinnar.

Launin hækka um 28 þúsund krónur á sólarhring

Velferðarráð hefur samþykkt að hækka launin um 88 prósent og er hækkunin til umræðu hjá borgarstjórn við fjárhagsáætlunargerð. Ef tillagan verður samþykkt verða launin að meðaltali 28 þúsund krónur á sólarhring auk álags fyrir sérlega krefjandi börn. Þannig verða launin nær því sem gengur og gerist á vinnumarkaði en án þess þó að ná lágmarks launataxta.

Sigurbjörg bendir á að stuðningsfjölskyldur séu ódýrara úrræði en skammtímavistanir auk þess sem æskilegra sé að börnin dvelji á heimilum.

„Þetta er ótrúlega mikilvægt fyrir þær fjölskyldur sem eru að fá þennan stuðning og börnin líka. Þetta er grunnþjónusta sem við viljum veita.“ 

Og Sigurbjörg hvetur alla sem hafa til þess heilsu og hreint sakavottorð til að sækja um. Hún segir litla hættu á að fólk sæki í störfin eingöngu vegna peninganna. 

„Það hefur alla vega ekki verið svoleiðis. Fólk hefur klárlega ekki verið að gera þetta fyrir peningana hingað til því launin hafa ekki verið há og ég held það breytist ekki. Við viljum fólk sem er að stunda þetta af góðmennsku.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×