Enski boltinn

Zlatan biðst afsökunar: Leikur sem ég vildi virkilega spila

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Zlatan Ibrahimovic togar Leroy Fer upp eftir brotið.
Zlatan Ibrahimovic togar Leroy Fer upp eftir brotið. Vísir/Getty
Zlatan Ibrahimovic gerði sig sekan um afdrifaríkt brot undir lokin á leik Manchester United og Swansea City um helgina. Brotið kallaði á gult spjald og þar með leikbann í næsta leik.

Ibrahimovic missir af sannkölluðum stórleik en hann má ekki spila í fyrsta leik eftir landsleikjahléið þegar Manchester United tekur á móti Arsenal á Old Trafford laugardaginn 19. nóvember næstkomandi.

Zlatan Ibrahimovic baðast afsökunar á gula spjaldinu. „Ég vildi óska þess að ég væri með í þessum leik því þetta er leikur sem ég vildi virkilega spila,“ sagði Ibrahimovic í samtali við sjónvarpsstöð Manchester United, MUTV.

Zlatan fékk gula spjaldið fyrir brot á Leroy Fer, miðjumanni Swansea. Brotið kom á 76. mínútu í stöðunni 3-1 fyrir Manchester United. Zlatan var búinn að gera það gott og hafði skorað tvö marka síns liðs.

„Alltaf þegar ég reyni að vera sterkur og fer í tæklingu þá fær ég gult spjald. Ég veit ekki ástæðuna fyrir þessu gula spjaldi vegna þess að ég var orðinn svo þreyttur að ég heyrði ekki útskýringu dómarans,“ sagði Ibrahimovic.

„Svona er þetta bara. Enski boltinn er harður og þegar láta menn finna fyrir sér. Ég sætti mig bara við það og reyni að taka á þessu af fagmennsku. Ég biðst afsökunar á því að missa af Arsenal-leiknum. Ég treysti samt liðsfélögunum mínum því ég veit að þeir standa sig vel án mín,“ sagði Zlatan Ibrahimovic.

Zlatan Ibrahimovic var þarna að skora sín fyrstu mörk í ensku úrvalsdeildinni síðan 10. september en hann er kominn með 6 mörk í 11 leikjum í deildinni á sínu fyrsta tímabili með Manchester United.

Zlatan fær nú fínt frí frá leikjum í ensku úrvalsdeildinni eða þar til United fær West Ham í heimsókn á Old Trafford 27.nóvember.

Zlatan fær gula spjaldið frá Neil Swarbrick.Vísir/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×