Innlent

Frekari fjármunir gerðir upptækir í tengslum við kannabisverksmiðjuna í Kópavogi

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Mynd úr safni.
Mynd úr safni. vísir/valli
Lögregla lagði hald á frekari verðmæti í tengslum við kannabisverksmiðju þriggja feðga við Smiðjuveg í Kópavogi um helgina. Fjármunir voru haldlagðir í síðasta mánuði, eftir að upp komst um starfsemina, en talið er að þeir séu tilkomnir vegna fíkniefnasölu.

Grímur Grímsson, yfirmaður hjá miðlægri rannsóknardeild lögreglunnar, segir að um umtalsverða fjármuni sé að ræða. Hann vill hins vegar ekki gefa frekari upplýsingar um upphæðina að svo stöddu.

„Við fórum í húsleit um helgina í tengslum við rannsóknina og lögðum hald á verðmæti sem við teljum tengjast brotastarfseminni, eftir að hafa fengið upplýsingar um það,“ segir Grímur í samtali við Vísi.

Feðgarnir þrír voru úrskurðaðir í vikulangt gæsluvarðhald í september, en ekki var talin þörf á áframhaldandi varðhaldi. Kannabisræktunin sem um ræðir er ein sú stærsta sinnar tegundar hér á landi. Hún var í iðnaðarhúsnæði við Smiðjuveg en þar fundust á sjötta hundruð kannabisplöntur á lokastigi ræktunar og mikið magn af tilbúnu maríjúana og niðurklipptum laufum. Ræktunin var mjög fullkomin og búnaðurinn eftir því, en það tók hóp lögreglumanna margar klukkustundir að ná ræktuninni niður.

Alls voru sex handteknir í tengslum við málið, þar af hjón á sextugsaldri og tveir synir mannsins.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×