Viðskipti innlent

Isavia hagnaðist um 3,1 milljarð króna árið 2015

Sæunn Gísladóttir skrifar
Meðalfjöldi starfa hjá Isavia samstæðunni, sem rekur meðal annars Keflavíkurflugvöll, jókst um 11 prósent á árinu 2015.
Meðalfjöldi starfa hjá Isavia samstæðunni, sem rekur meðal annars Keflavíkurflugvöll, jókst um 11 prósent á árinu 2015. Vísir/Anton
Heildarafkoma ársins 2015 hjá Isavia samstæðunni, sem er í eigu ríkisins, var jákvæð um 3,1 milljarð króna, sem er um 876 milljónum króna betri afkoma en árið 2014. Þennan mun má að hluta rekja til gengisáhrifa af erlendum langtímalánum en stærri hluta má rekja beint til bættrar afkomu af rekstri samstæðunnar, segir í tilkynningu.

Heildartekjur Isavia samstæðunnar á árinu námu 26 milljörðum króna sem er aukning um 4 milljarða eða 18% frá árinu 2014. Rekstrarafkoma fyrir fjármagnsliði nam um fjórum milljörðum króna og jókst um 671 milljón milli ára.

Heildareignir samstæðunnar námu 45,2 milljörðum króna í árslok 2015 og þar af eru 37,2 milljarðar króna tilkomnir vegna fastafjármuna. Alls námu fjárfestingar í varanlegum rekstrarfjármunum og óefnislegum eignum 7,6 milljörðum króna og þar af eru 6,5 milljarðar króna tilkomnir vegna fjárfestinga á Keflavíkurflugvelli. Eiginfjárhlutfall samstæðunnar var 44,6 prósent í lok árs 2015 samanborið við 41,8 prósent árið á undan og heldur því áfram að hækka.

Meðalfjöldi starfa hjá samstæðunni jókst um 11 prósent og var 1.017 störf árið 2015 samanborið við 914 störf árið 2014. Þar af var meðalfjöldi starfa hjá móðurfélaginu 807 (12 prósent aukning), hjá Fríhöfninni 161 (5,6 prósent aukning) og hjá Tern 49 (14 prósent aukning).






Fleiri fréttir

Sjá meira


×