Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og varaformaður Framsóknarflokksins, var spurður að því í kvöldfréttum Stöðvar tvö í gær hvort eðlilegt væri að forsætisráðherra og eiginkona hans ættu stórar fjárhæðir á Tortola.
„Það er auðvitað augljóslega talsvert flókið að eiga peninga á Íslandi. Það er ekkert að því að fólk sé efnað á Íslandi.“
En að eiga peninga á Tortola?
„Einhvers staðar verða peningarnir að vera,“ svaraði Sigurður Ingi.
Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, segir þetta undarlega útleggingu hjá ráðherranum.
„Það er ekkert flókið að eiga peninga á Íslandi. En það er þannig að ef menn vilja vera í stjórnmálum verða menn að velja og hafna. Þeir verða að velja hvort þeir ætla að deila kjörum með þjóðinni eða ekki. Um það snýst þetta mál. Það er stóra spurningin sem greinilega ráðherrar þessarar ríkisstjórnar eiga mjög erfitt með að svara, hvort þeir ætli að deila kjörum með þjóðinni,“ segir Árni Páll.

Einmitt kannski vegna þess að það er flókið að eiga peninga á Íslandi? Hann nefnir krónuna í því samhengi sem ástæðuna fyrir því að hann hafi félag í Luxemburg.
„Já hann á nú heiður skilið fyrir að meta það meta það mest að halda fókusnum á því sem máli skiptir. Sem er trúnaðarbrot forystumanna í ríkisstjórn,“ segir formaður Samfylkingarinnar.
Íslenska krónan valdi því að allur almenningur hafi ekki raunverulegt val um hvar hann hafi eignir sínar.
„Og reiði fólks er eðlileg þegar menn sjá að þeir sem síðan stjórna landinu og þeir sem ætla okkur að vera föst í þessum hlekkjum, hafa engan áhuga á því að vera sjálfir sjálfir í þessum hlekkjum. Þeir vilja bara binda okkur niður við íslenska krónu en ekki búa við þann veruleika sjálfir,“ segir Árni Páll.
Þá hafi flest stórfyrirtæki í útflutningi yfirgefið krónuna.
„Og það liggur fyrir tillaga frá fjármálaráðherra um að auðugustu Íslendingarnir fái einir að taka lán í erlendum gjaldmiðli og öðrum Íslendingum verði það bannað. Það undirstrikar enn og aftur eindreginn ásetning þessarar stjórnarforystu til að búa til tvær þjóðir í þessu landi. Þar sem önnur er frjáls, býr ekki við nein landamæri, en þorri fólks er fastur hér tjóðraður og kemst hvorki lönd né strönd,“ segir Árni Páll Árnason.