Viðskipti innlent

Telur áform tryggingafélaganna um arðgreiðslur hafa verið eðlileg

sæunn gísladættur skrifar
Tryggingafélögin lögðu til 9,6 milljarða arðgreiðslur.
Tryggingafélögin lögðu til 9,6 milljarða arðgreiðslur. vísir
Arðsemi íslenskra tryggingafélaga hefur verið eðlileg undanfarin ár og arðgreiðslurnar sem voru fyrst ákvarðaðar á þessu ári voru ekki of háar út frá viðskiptalegum forsendum. Þetta segir Hrannar Hólm, sérfræðingur í greiningardeild Capacent. Hann heldur erindi um tryggingafélögin á morgunverðarfundi Capacent í dag undir yfirskriftinni Hvernig virka tryggingafélög? Eru háar arðgreiðslur af lágar?

Hrannar Hólm.Mynd/Capacent
Hrannar segir að afkoma íslenskra tryggingafélaga sé heldur frábrugðin afkomu félaga í nágrannaríkjum. „Tryggingafélög í nágrannalöndum eru með miklu betri tryggingarekstur, þau eru með afgang frá rekstrinum. Iðgjöld í Noregi og Danmörku standa undir rekstrarkostnaði og tjónum. Þannig hefur það ekki verið á Íslandi. Það sem kemur sér vel fyrir tryggingafélög á Íslandi er að þau lifa í hávaxtaumhverfi. Þau geta ávaxtað peninginn sem þau hafa. Það er ástæðan fyrir því að arðsemin hefur verið í lagi, en það tengist ekki tryggingarekstrinum,“ segir Hrannar.

„Þannig að hagnaðurinn í Danmörku og Noregi er byggður á tryggingarekstrinum, en á Íslandi á ávöxtun fjármuna. Við teljum að þetta geti breyst á Íslandi. Menn verða að ná betri tökum á tryggingarekstrinum, þú getur ekki treyst á þessa ávöxtun. Ef vaxtastig á Íslandi lækkar einhvern tímann þá verður erfiðara fyrir tryggingafélög að reka sig.“

Hrannar segir að á undanförnum árum hafi arðsemi tryggingafélaga verið eðlileg, út af fjárfestingartækifærum. „Hún er í takt við þá kröfu sem fjárfestar gera á sitt fé sem þeir leggja inn í fyrirtækið,“ segir Hrannar.

„Arðgreiðslurnar sem ákvarðaðar voru í byrjun árs, sem eru eina leiðin fyrir hluthafa að fá ávöxtun á sínu fé, voru ekki of háar út frá viðskiptalegum forsendum. Við ætlum ekki að leggja mat á það hvað fólki finnst og hvað sé rétt eða rangt pólitískt. En hreint og klárt viðskiptalega, þegar ekki er búið að greiða út arð í langan tíma og peningurinn er búinn að safnast upp inni í félaginu, þá geturðu tekið ákvörðun um að annaðhvort greiða arðinn út til eigenda eða til tryggingahafa,“ segir Hrannar Hólm. saeunn@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×