Innlent

Ofþjálfun klínískt vandamál hjá íslenskum ungmennum

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Ofþjálfun er klínískt vandamál hjá íslenskum ungmennum samkvæmt nýrri rannsókn.  Dæmi eru um að þrettán til átján ára krakkar æfi 27 klukkustundir á viku. Sjúkraþjálfarar og íþróttaþjálfarar eru á einu máli um að efla þurfi forvarnir vegna ofþjálfunar.

Ofþjálfun er uppsafnað álag vegna þjálfunar. Tíu helstu einkenni ofþjálfunar eru orkuleysi, breyting á matarlyst, einkenni þunglyndis, stoðkerfisverkir, minni áhugi og ójafnvægi, óútskýrt þyngdartap, skert frammistaða, svefntruflanir og síþreyta.

Í rannsókninni var spurningalisti lagður fyrir sjúkraþjálfara og þjálfara í fimleikum, frjálsum, sundi og boltaíþróttum sem meta tíðni ofþjálfunar allt upp í tuttugu prósentum tilfella sem þýðir með öðrum orðum að um klínískt vandamál sé að ræða.

Samkvæmt rannsókninni æfa ungmenni boltagreinar í allt að átta klukkustundir á viku. Frjálsar íþróttir í allt að fimmtán klukkustundir, sund allt að 21 klukkustund á viku og fimleika í allt að 27 klukkustundir á viku sem er nærri því 75 prósent starfshlutfall.

Þýðir þetta að íslensk ungmenni séu að æfa of mikið?

„Í einhverjum tilfellum, já. Kannski ekkert rosalega stór hópur en einhverjir og við þurfum að vinna í því,“ segir Þóra Hugosdóttir sjúkraþjálfari og rannsakandi.

Meirihluti þátttakenda í rannsókninni telja fræðslu og forvarnarstarf um ofþjálfun vera ábótavant en sextíu prósent íþróttadeilda eru ekki með neina fræðslu um ofþjálfun.

„Við þurfum að efla forvarnir og fræða ungmenni, þjálfara og heilbrigðisstarfsmenn. Íþróttahreyfingin þarf að hafa það að markmiði að íþróttir séu stundaðar til heilsubótar og að hreyfing sé til heilsubótar,“ segir Ágústa Ýr Sigurðardóttir sjúkraþjálfari og rannsakandi.

En hvað segja ungmennin sjálf?

„Ég hef fengið álagsmeiðsli bæði í höndina og fæturna, beinhimnubólgu, en það stoppaði mig ekkert. Ég vann bara í því með sjúkraþjálfara,“ segir Ásta Kristinsdóttir sem æfir hópfimleika.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×