Guðmundur G. Þórarinsson verkfræðingur veltir upp spurningum sem þessum í nýrri bók, Árdagar Íslendinga. Þar fjallar Guðmundur um helstu kenningar sem settar hafa verið fram um uppruna Íslendinga og landnám Íslands. Sagan er rakin allt frá elstu heimildum um Thule og fund Íslands.
Í fréttatilkynningu segir útgefandinn, Einir útgáfa, að þetta sé fyrsta heildstæða bókin um þetta efni. Höfundur fari þar yfir helstu rannsóknir fræðimanna sem tengjast landnáminu en skoði einnig djarfar kenningar sem fram hafi komið um uppruna þjóðarinnar.

Var ástæða kristnitökunnar viðskiptalegs eðlis? Fela genarannsóknir í sér hinn eina sannleik um uppruna Íslendinga? Eru sumir landnámsmenn tilbúningur einn byggður á örnefnum landsins?
Eða:
Af hverju var Landnáma skrifuð? Hvaða hvatir voru þar að baki? Hverjir skrifuðu og undir hvaða áhrifum voru þeir? Var auður af viðskiptum við Grænland fjárhagslegur grunnur að skrifum fornra bókmennta Íslendinga? Sýna vættirnar í skjaldarmerki Íslendinga tengsl við fornþjóðir Biblíunnar?
Bókin er 426 síður með fjölda lit- og skýringarmynda. Forsíðu- og útlitshönnun bókarinnar annaðist Ragnar Helgi Ólafsson.
„Þetta er svo heillandi viðfangsefni að fara ofan í þetta að maður verður bara að vara sig að sökkva ekki alveg,“ sagði Guðmundur í viðtali í Landnemunum síðastliðinn vetur en síðari hluti þáttaraðarinnar hefst á Stöð 2 þann 14. nóvember.