Innlent

Maður í sjálfheldu á Gunnólfsvíkurfjalli á Langanesi

nína hjördís þorkelsdóttir skrifar
Þyrla Landhelgisgæslunnar er á leið á vettvang.
Þyrla Landhelgisgæslunnar er á leið á vettvang. Vísir/vilhelm
Þyrla Landhelgisgæslunnar hefur verið kölluð út vegna manns sem er í sjálfheldu á Gunnólfsvíkurfjalli á Langanesi.

Tilkynning barst frá manninum síðdegis í dag og voru Björgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar á Norðausturlandi kallaðar út honum til aðstoðar.

Samkvæmt tilkynningu frá Björgunarsveitunum var maðurinn  í sjálfheldu í um 200 metra hæð í bjarginu við fossinn Míganda sunnan til í Gunnólfsvíkurfjalli.

Gunnólfsvíkurfjall er á Langanesi á Norðausturlandi.Kort/Loftmyndir.is
Björgunarfólki tókst ekki að komast að manninum fyrir myrkur og því hefur þyrla Landhelgisgæslunnar verið kölluð út. Mun hún flytja sérhæft fjallabjörgunarfólk á staðinn. Vonir standa til þess að þyrlan geti lýst upp bjargið og aðstoðað við björgun mannsins. Nokkur ísing er í bjarginu og hitastig fer lækkandi.

TF-SYN, þyrla Landhelgisgæslunnar er nú að leggja af stað frá flugvelli Landhelgisgæslunnar og mun halda beint á vettvang til leitar. Samkvæmt tilkynningu frá Landhelgisgæslunni er skyggni gott og veður á vettvangi ágætt.

Uppfært kl. 22:40

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Þórshöfn er þyrla Landhelgisgæslunnar á vettvangi og standa björgunaraðgerðir enn yfir. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×