Skoðun

Tæklum spillinguna

Jón Þór Ólafsson skrifar
Sem markaðssinni sem mælist til hægri í stjórnmálum er mér ljóst að hægri flokkarnir eru illfærir um að efla virka samkeppni, skattaeftirlit og tækla spillingu vegna hagsmunatengsla. Hagsmunatengslin eru skiljanleg því með því að nota almannavald í þágu sérhagsmuna – sem er skilgreiningin á pólitískri spillingu – hafa ráðandi flokkar fengið aðstoð sérhagsmunaaðila við atkvæðaveiðar. Píratar eru til af því að Internetið og samfélagsmiðlarnir hafa breytt þessu. Í dag þarf ekki aðstoð sérhagsmunaaðila til að ná til kjósenda. Núna er því tækifæri til að tækla þessa óþarfa spillingu sem skilar aðeins velmegun fyrir mjög fáa á kostnað okkar allra.

Fyrrverandi saksóknari, Eva Joly, hefur boðist til að aðstoða Pírata við að stöðva brot í skattaskjólum. Samkeppniseftirlitið segir að bann við stjórnarsetu yfirstjórnenda sem brjóta samkeppnislög og það að auðvelda skaðabótamál gegn lögbrjótunum muni bíta. Það er fámennur hópur sem mannar flestar stjórnir stórfyrirtækja í landinu. Sameinuðu þjóðirnar vilja senda sérfræðinga til að aðstoða okkur við að leiða í lög samninginn gegn spillingu sem Ísland samþykkti fyrir sex árum. Minni spilling og virkari samkeppni þýðir meiri verðmætasköpun og hagkvæmara rekstrarumhverfi fyrir langflesta. Spilling er sóun. Það besta sem gerðist fyrir flest Sjálfstæðisfólk og aðra markaðssinna væri umbótastjórn Pírata svo þegar Sjálfstæðisflokkurinn kemst aftur til valda neyðist forystan til að sinna betur grunnstefnu flokksins í stað sérhagsmunagæslu.

Miðju-vinstristjórn sem færir okkur markaðsverð fyrir auðlindirnar og aðrar ríkiseignir, stóreflir heilbrigðisþjónustuna, tæklar spillingu, eykur virka samkeppni og eflir lýðræðið með nýju stjórnarskránni er í dag farsæl fyrir framtíð flestra sem hallast til hægri.

Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×