Í þættinum Landnemarnir á Stöð 2 vakti Bergsveinn Birgisson rithöfundur athygli á steinhleðslum sem kallast Illþurrka og eru í fjallaskarði, um þrjá kílómetra austan við bæinn Skarð. Vitnaði Bergsveinn til 170 ára gamalla skrifa Kristjáns Magnusen, kammerráðs á Skarði, sem í héraðslýsingu frá árinu 1842 sagði þetta vera grafreit. Þarna væri grafin eiginkona Geirmundar heljarskinns, sem nefnd hafi verið Illþurrka, en nafnið telur Bergsveinn hljóðgervingu af nafni konu frá fjarlægu landi.

Varðan ofan á er talin síðari tíma verk en það er steinhringurinn undir sem Bergsveinn telur að sé hringgröf, eins og tíðkuðust víða í Norður-Skandinavíu í fornheiðni.

Minjavörður Vesturlands, Magnús Sigurðsson, segir að Illþurrka sé hvorki friðlýst né á fornleifaskrá en hann hyggst eftir þessa ábendingu fara á staðinn við fyrsta tækifæri með vorinu og kanna hleðslurnar.
