Viðskipti innlent

Bjarni hrósar sigri: ,,Thank you, goodbye”

ingvar haraldsson skrifar
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra er ánægður með stöðu efnahagsmála hér á landi.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra er ánægður með stöðu efnahagsmála hér á landi. vísir/pjetur
„Ekkert ríki hafði, fyrr eða síðar svo vitað sé, þurft að glíma við viðlíka greiðslujafnaðarvanda og Ísland stóð frammi fyrir,“ sagði Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, á ársfundi Seðlabankans nú síðdegis um stöðu máli á ársfundi bankans fyrir ári.

„Landið hvíldi undir snjóhengju fjármagns sem leitaði útgöngu og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn mat að næmi 70% af landsframleiðslu. Það var ljóst að þessi fordæmalausa staða kallaði á fordæmalausar aðgerðir,“ sagði Bjarni.

„Við sjáum það nú að inngrip stjórnvalda var nauðsyn. Án lagasetningar og afarkosta eru líkur til þess að við sætum enn að bíða eftir hugmyndum slitabúa að nauðasamningum“ sagði Bjarni um áætlun sem stjórnvöld kynntu á blaðamannafundi þann 8. júní síðastliðinn.

Þá sagði Bjarni að búið væri að ljúka uppgjörumslitabúa föllnu bankanna með þeim hætti að engin útistandandi lagaleg ágreiningsmál væru til staðar. „Málið afgreitt. Thankyou, goodbye,” sagði Bjarni.

Bjarni sagði að þessi staða gæti nú valdið því að umskiptin á vaxtajöfnuði ríkissjóðs gætu staðið undir byggingu nýs þjóðarsjúkrahúss. Merki þess muni sjást í ríkisfjármálaáætlun til fimm ára, sem leggja á fyrir Alþingi um næstu mánaðamót.

Afnám hafta síðar á árinu

Bjarni sagði að til stæði að afnema höftin síðar á þessu ári.

Ekki ætti að bjóða upp í sama dans og fyrir hrun eftir afnám fjármagnshafta. Varúðarreglur myndu leysa fjármagnshöftin af hólmi enda væri fjármálastöðugleikaráð þegar starfandi. „Nýtt regluverk á fjármálamarkaði gerir mun strangari kröfur til þeirra sem á honum starfa en við þekktum hér áður fyrr,“ sagði Bjarni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×