Birkir Bjarnason varð í kvöld síðasti Íslendingurinn til að kveðja Evrópukeppni á þessu tímabili þegar lið hans Basel fékk skell í Andalúsíu í 16 liða úrslitum Evrópudeildarinnar.
Eftir markalaust jafntefli í fyrri leiknum á heimavelli gegn ríkjandi Evrópudeildarmeisturum Sevilla tapaði liðið 3-0 á útivelli í kvöld. Sevilla fer því áfram samanlagt, 3-0.
Meistararnir afgreiddu verkefnið í fyrri hálfleik þar sem þeir skoruðu öll mörkin. Adil Rami kom þeim á bragðið á 35. mínútu og Kevin Gameiro skoraði svo tvö mörk á 44. og 45. mínútu.
Birkir var í byrjunarliði svissnesku meistarana en var tekinn af velli á 61. mínútu.
Birkir og félagar fengu skell gegn meisturunum
Tómas Þór Þórðarson skrifar
