Lífið

Tók sér stöðu dómara í veiðiþætti BBC

Guðrún Ansnes skrifar
Valgerður hefur farið út um allan heim til að renna fyrir fisk, svo sem Skotlands, Mexíkó, Grænlands og Belíss. Hún horfir löngunaraugum til Rússlands núna.
Valgerður hefur farið út um allan heim til að renna fyrir fisk, svo sem Skotlands, Mexíkó, Grænlands og Belíss. Hún horfir löngunaraugum til Rússlands núna.
„Ég hef aldrei verið í sjónvarpi svo það má segja að hafi sannarlega hoppað út í djúpu laugina þarna,“ segir Valgerður Árnadóttir, sem birtist nú á skjáum fiskveiðiáhugamanna um heim allan. Hún tók sér stöðu dómara í þáttum BBC-sjónvarpsstöðvarinnar, Earth’s Wildest Waters: The Big Fish.

„Þetta er átta þátta sería þar sem átta veiðimenn taka þátt og í hverjum þætti dettur einn út. Fyrsti þátturinn í þessari seríu var tekinn upp hér á Íslandi, á Þingvöllum og á Ísafirði,“ útskýrir Valgerður.

Voru það sjónvarpsmennirnir Ben Fogle og Matt Hayes sem ásamt fylgdarliði heimsóttu landið í fyrra, í þeim tilgangi að leggja þrautir fyrir keppendur, og dómari hvers lands, sem heimsótt var, sá um að vega og meta færni viðkomandi.

Valgerður segir föður sinn, Árna Baldursson, eiganda Stangveiðfélagsins Lax-Á, upphaflega hafa verið hugsaðan í verkið en það hafi hins vegar ekki gengið upp og hún því skellt sér á Skype þar sem viðtalið við framleiðanda fór fram. Þar hreppti hún í stuttu máli hnossið.

„Það var mjög gaman að fá að taka þátt í þessu, sér í lagi í ljósi þess að ég var eina konan sem sinnti hlutverki dómara í þessari seríu. Mér finnst gott að vera fyrirmynd bæði kvenna og ungu kynslóðarinnar.“

Ben Fogle, Valgerður og Matt Hayes meðan á tökum stóð hér á landi.
Þættirnir hafa þegar verið sýndir í Bretlandi, Ástralíu og á Nýja-Sjálandi, en verða sýndir víða um Evrópu á næstunni, segir Valgerður.

„Þetta er hálf fyndið, ég hafði ekki gert neitt svona áður. Svo eftir viku af upptökum segir framleiðandinn við mig: Vá, þú ert greinilega reynslubolti í þessu, ertu bara ekkert stressuð? og ég gat ekki annað en hlegið og spurt til baka; Nei í rauninni ekki. Hvað gæti klikkað? Tökum við ekki bara aftur ef með þarf? Hún játti því en gat ekki annað en spurt mig hvað ég héldi að margir myndu horfa á þetta. Ég sagðist halda kannski svona hundrað þúsund manns í besta falli. Hún hló, enda kom það á daginn að um tvær milljónir horfðu á þáttinn, enda á „primetime“ í sjónvarpinu úti í Bretlandi.“

Valgerður segist sjálf hafa mikinn áhuga á að vinna meira með vitneskju sína um fiskveiðar í sjónvarpi enda liðið vel fyrir framan vélarnar. Hún viðurkennir jafnframt að sannarlega sé ákveðið forskot fyrir hana að vera kona í þessum karllæga bransa, hún fái fyrr athygli í sportinu.

„En það er líka dálítð erfitt. Að vera kona í þessum bransa gerir það að verkum að manni finnst maður oft þurfa að sanna sig meira. Vera eitthvað meira en „pretty face“ og allt þetta.“ 

Þá segist hún alloft lenda í að veiðimenn sem komi í kofana hér heima, biðji hana um að hella upp á kaffi eða annað slíkt, sem hún og gerir. „Svo verða þeir eins og beygluð vaskaföt þegar ég klæði mig í gallann og fer að veiða rétt eins og þeir,“ segir hún og hlær.

Valgerður hefur í nægu að snúast, en hún er nýflutt aftur til landsins frá Kaupmannahöfn, þar sem hún var í mastersnámi í lögfræði, samhliða því að sinna gríðarlega umfangsmikilli samfélagsmiðlavinnu, sem einmitt er tengd fiskveiðunum, og ferðast vítt og breitt um heiminn með stöngina í farteskinu. 

„Ég hef mjög gaman af að spá í samfélagsmiðlana og er með tólf þúsund fylgjendur á Instagram þar sem ég pósta myndum úr veiðinni. Þá blogga ég líka, sem átti bara að vera hobbí en fær gríðarlega góðar viðtökur, sér í lagi í Kanada og Bandaríkjunum,“ segir hún að lokum, spennt fyrir komandi ævintýrum. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×