Lífið

Var settur í brandarabann og stofnaði því Facebook-hópinn Myndskrítlufélagið

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Pétur Sveinsson situr hér og hannar myndaskrítlu, sem á án efa eftir birtast í Facebook-hópnum hans, Myndskrítlufélaginu.
Pétur Sveinsson situr hér og hannar myndaskrítlu, sem á án efa eftir birtast í Facebook-hópnum hans, Myndskrítlufélaginu.
„Það má segja að síðan hafi sprungið út þegar að Jónsa-brandarinn fór í loftið.

Meðlimafjöldinn fór úr sirka 500 og í 1.900 og eitthvað á einum mánuði eftir að brandarinn fór í loftið,“ segir Pétur Sveinsson, stofnandi Facebook-hópsins Myndskrítlufélagsins.

Um er að ræða Facebook-hóp þar sem fólk birtir hinar ýmsu myndskrítlur, sem einkennast gjarnan af svokölluðu orðagríni með mynda­spaugi.

Þó svo að síðan hafi verið stofnuð árið 2014 hefur hún hingað til farið frekar hljótt en eins og fyrr segir kveikti ein myndskrítlan neista og hefur meðlimum hópsins fjölgað svo um munar.

Myndskrítlan með Jónsa í svörtum fötum sló í gegn á Facebook.
Ein af ástæðunum fyrir því að Pétur stofnaði hópinn er sú að hann var settur í nokkurs konar brandarabann í öðrum vinsælum Facebook-brandarahóp.

„Ég byrjaði að setja eitt og eitt myndband inn á mína eigin síðu og fólk tók alveg vel í það.

Svo fór ég að gera einn og einn myndabrandara og fór að taka eftir því að fólki fannst betra að fá bara myndir því þá sér fólkið þær strax og þarf ekki að bíða eftir að myndbandið hlaðist inn. Svo fór ég að dæla inn bröndurum á aðra brandarasíðu og fékk mjög góðar undirtektir, alveg mörg hundruð læk.

Mín kenning er sú að eigendur síðunnar hafi orðið pínu afbrýðisamir því þeir báðu mig um að hætta að setja inn á síðuna og í kjölfarið ákvað ég bara að búa til mína eigin síðu,“ útskýrir Pétur.

Dóttir Péturs, Amanda Emma er með Buff í hárinu.
Hann segist alla tíð hafa haft gaman af bröndurum og orðagríni.

„Alveg síðan ég var ég lítill hef ég verið að snúa út úr öllu til að gera lífið skemmtilegra, svo eru þetta líka gamlir brandarar fastir í hausnum á manni.“

Pétur segir að brandararnir hans séu frumsamdir af honum.

„Allt sem ég hef gert þarna er frumsamið, fólk hefur alveg sent mér og beðið mig um að búa til brandara úr hinu og þessu en þetta er allt eitthvað sem ég hef fattað. Mikið af þessu er eitthvað sem ég fattaði fyrir löngu, alveg tuttugu árum, en þá var enginn vettvangur til að koma þessu frá sér.

Þetta er margt sem er bara fast í hausnum á manni síðan í gamla daga. Mér dettur alltaf eitthvað hug á hverjum degi,“ segir hann.

Pétur hvetur fólk til þess að taka þátt í gríninu og segist sjálfur nota grínið til þess að gera lífið skemmtilegra.

„Mín kenning hefur alltaf verið að grín þurfi ekkert að vera það fyndið, sérstaklega á vettvangi þar sem fólk býst ekki við gríni.

Einu sinni fór ég í lúgusjoppu, og spurði: „Hvað kostar Vikan hjá þér?“ sem er blað eins flestir vita og starfsmaður nefndi eitthvert verð og ég svaraði þá:

„Á ég þá ekki bara að sækja þig eftir vinnu?“ Afgreiðslustúlkan grenjaði úr hlátri, þannig að þetta er dæmi um grín á vettvangi þar sem fólk býst ekki við því,“ útskýrir Pétur léttur í lundu.

Myndskrítlurnar sem eru hér í greininni eru allar eftir Pétur. Hægt er að skoða enn fleiri skrítlur með því að fara inn í Myndskrítlufélagið á Facebook.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×