Erlent

Evrópuþingmaður UKIP slasaðist eftir slagsmál við flokksfélaga sinn

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Steven Woolfe.
Steven Woolfe. Vísir/EPA
Steven Woolfe, evrópuþingmaður UKIP-flokksins í Bretlandi, var fluttur á sjúkrahús eftir að hafa verið kýldur á fundi evrópuþingmanna flokksins í Strassburg fyrr í dag. Mike Hookem, annar evrópuþingmaður flokksins á að hafa slegið Woolfe, sem hneig niður nokkru síðar og var þá fluttur á sjúkrahús. Samkvæmt nýjustu fréttum er liðan Woolfe stöðug. Woolfe er ákveðin vonarstjarna innan UKIP, en talið er að hann muni sækjast eftir formennsku í flokknum eftir að Diane Jones sagði af sér. 

Samkvæmt heimildum the Guardian átti atvikið sér stað eftir spennuþrunginn fund Evrópuþingmanna UKIP-flokksins þar sem Hookem ásakaði Woolfe um að íhuga að flytja sig yfir í íhaldsflokkinn. Hookem á að hafa sagt nokkur vel valin orð við Woolfe vegna þessa.

Woolfe á þá að hafa farið úr jakkanum, gengið að Hookem og sagt „Jæja. Þú úti núna, eða eitthvað í þá áttina,“ segir heimild Guardian. „Þeir fóru út og Steven Woolfe kom illa út úr því.“

Woolfe virtist í góðu lagi í um hálfa klukkustund en þá hneig hann niður og var fluttur á sjúkrahús. Á tímabili var talið að Woolfe væri í lífshættu, en samkvæmt nýjustu fregnum er líðan hans stöðug og hann með meðvitund.

Samkvæmt Darren McCaffrey, fréttamanni Sky, hefur Woolfe nú gefið út yfirlýsingu þar sem hann segir líðan sína betri.

„Sneiðmyndataka sýndi að enginn blóðtappi er í heilanum. Á þessari stundu líður mér betur en nokkru sinni fyrr. Ég dvel á sjúkrahúsinu yfir nótt á meðan beðið er eftir niðurstöðum rannsókna, svo gengið sér úr skugga um að allt sé með feldu,“ segir í tilkynningu Woolfe.

„Ég vil að allir viti að starfs fólk þingsins, evrópuþingmenn UKIP og starfsfólk sjúkrahússins hafa verið stórkostleg. Umönnun þeirra hefur verið einstök. Ég sit uppréttur og er sagt að ég líti vel út. Einu afleiðingarnar þessa stundina eru dofi í vinstri hendi og vinstri hlið andlits míns.“

Neðst í tilkynningu frá Woolfe stendur að hann hafi líklega fengið tvö flogaköst og fann fyrirdofa á vinstri hlið líkamans. Hann hafi misst meðvitund en að það sé liðið hjá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×