Innlent

Lilja Rafney lýsir yfir stuðningi við sjókvíaeldi

Jakob Bjarnar skrifar
Lilja Rafney ætti líkast til erfitt uppdráttar í kjördæmi sínu ef hún talaði fyrir yfirlýstum stefnumiðum Vinstri grænna. Gunnar Bragi kynnti í morgun áætlun um aukið eftirlit, starfstöð verður sett upp á Ísafirði.
Lilja Rafney ætti líkast til erfitt uppdráttar í kjördæmi sínu ef hún talaði fyrir yfirlýstum stefnumiðum Vinstri grænna. Gunnar Bragi kynnti í morgun áætlun um aukið eftirlit, starfstöð verður sett upp á Ísafirði.
Lilja Rafney Magnúsdóttir, sem skiptar efsta sæti á lista VG í Norðurvesturkjördæmi, ritar grein sem birtist á bb.is þar sem hún lýsir yfir stuðningi við fiskeldi.

„Fiskeldi er ný og blómstrandi atvinnugrein á Vestfjörðum. Aðrir landshlutar hafa margra ára jákvæða reynslu af fiskeldi á landi sem hefur skapað mörg störf, bæði fyrir konur og karla, faglærða og ófaglærða. Á Vestfjörðum sunnan Dýrafjarðar er óheillaþróun síðustu ára að snúast við, fólki fjölgar og fær atvinnu við hæfi," skrifar Lilja Rafney meðal annars.

Stóraukið sjókvíaeldi fyrirhugað

Fyrirhugað er stóraukið sjókvíaeldi við Íslandsstrendur. Í fyrra voru framleidd 2.500 þúsund tonn af laxi og regnboga en á þessu ári ætla menn að framleiða 8.000 tonn. Landsamband veiðifélaga hefur lýst yfir miklum áhyggjum af þessari þróun og segja að þar sé verið að tefla villtum laxastofnum í hættu með genablöndun og ýmsum smitsjúkdómum sem fylgja slíku eldi. Komið hefur fram að leyfi til til að hefja laxeldi kosti 200 milljónir í Noregi meðan sambærileg leyfi hér kosta 300 þúsund. Enda hafa norskir laxeldismenn fjárfest í slíkri starfsemi á Íslandi.

Hilmar Hansson fer framarlega í stórum hópi sem berst mjög gegn fyrirhuguðum áformum um stóraukið laxaeldi við Íslandsstrendur.
Þá hefur einnig verið vakin athygli á því að slíkri starfsemi fylgir verulegur sóðaskapur þar sem vistkerfinu er teflt í tvísýnu. Í athugasemdakerfi við leiðara sem Magnús Guðmundsson menningarblaðamaður ritaði í Fréttablaðið nýverið hafa menn tekist á. Þar hafa einkum þeir Höskuldur Steinarsson framkvæmdastjóri Landsambands fiskeldisstöðva og Hilmar Hansson veiðimaður sem hefur hefur sett fram gögn til að styðja mál sitt.

Hér getur til að mynda að líta neðansjávarmyndir sem David Ainsley, sem er sjávarlíffræðingur og kafari, tók af sjávarbotni við Skotland, undir laxeldiskví. Þar hefur myndast þykkt lag af úrgangi og er svæðið þar undir og gott betur dautt.

Stangveiðimenn eru reyndar afar ósáttir með ummæli Höskuldar í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær, þar sem hann sagði að barátta þeirra snérist um hagsmuni og peninga en ekki náttúruvernd. Þar á bæ leggja menn á ráðin um hvernig bregðast megi við þessu en mikil reiði er ríkjandi í Facebookhópnum Veiðidellan er frábær.

Sérkennileg mótmæli við atvinnuuppbyggingu

En, svo áfram sé vitnað Lilju Rafney þá segir hún að mitt í þessum jákvæðu fréttum sem hún telur aukið eldi vera berist mótmæli frá þeim sem telja „fiskeldi í sjó ógna lífríkinu á óafturkræfan hátt og öðrum sem segja að fiskeldi í sjó takmarki notkunarmöguleika þeirra á hafinu.“ Lilja Rafney telur nauðsynlegt að hlusta á þessar raddir með það fyrir augum að sætta sjónarmið því hafið sé okkar sameiginlega auðlind og hana beri að virða og nýta með sjálfbærum hætti.

„Árið 2004 var farið í víðtæka aðgerð þar sem drjúgum hluta strandlengjunnar var lokað fyrir sjókvíaeldi á laxfiskum. Þessi aðgerð var varúðarráðstöfun, ætluð til verndar dýrmætum villtum laxastofnum. Þannig var öllum stærstu farvegum villtra laxa hlíft, en í fjarlægðinni felst mikil vernd gegn mögulegri erfðablöndun villtra laxa og eldislaxa. Þrátt fyrir þetta hafa andstæðingar sjókvíaeldis enn uppi mótmæli og af því tilefni hafa verið nefndar tæknilegar lausnir eins og eldi á landi og notkun geldhrogna,“ segir Lilja Rafney.

Grímur Atlason er einn þeirra sem furðar sig mjög á pistli Lilju Rafneyjar.
Umhverfisvernd og íslensk pólitík

Pistill þingkonunnar, oddvita VG í Norðvesturkjördæmi, hefur reynst umdeildur og mörgum þykir hann stangast verulega á við yfirlýsta umhverfisstefnu VG. Grímur Atlason framkvæmdastjóri, sem starfaði um hríð innan VG, furðar sig á þessu á sinni Facebooksíðu. „Það er þetta með VG og umhverfisverndina. Það er falleg framtíð á Bakka og þegar villti laxinn verður útdauður. Kannski fáum við borpall á Drekann líka? Eruð þið að kidda mig?“

Háðskar umræður hafa sprottið á síðu Gríms og er þar meðal annars bent á að VG ætti býsna erfitt uppdráttar í kjördæmi Lilju Rafneyjar ef hún færi að tala fyrir þeim sjónarmiðum sem sett eru fram í stefnuskrá Vinstri grænna.

Gunnar Bragi Sveinsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, kynnti nú í dag fyrirætlanir stjórnvalda um að koma setja fram heildar stefnumótun fyrir fiskeldi á Íslandi og að rannsóknir, vöktun og eftirlit skuli aukið. Sérstakri stöð í því skyni verður komið fyrir á Ísafirði.


Tengdar fréttir

Skammsýni

Við sem erum komin á miðjan aldur eða eldri munum þá tíma þegar refa- og minkabúskapur átti að koma íslenskum sveitum til bjargar.

Miðstöð fiskeldis verður á Ísafirði

Sviðsstjóri fiskeldismála hjá Hafrannsóknastofnun verður staðsettur á Ísafirði, ásamt sérfræðingum, samkvæmt ákvörðun Gunnars Braga Sveinssonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×