Innlent

Miðbæjarhótel tryggja sig í Aðalstræti

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Aðalstræti 8 til vinstri og Aðalstræti 6 fyrir miðri mynd eru áberandi byggingar við Ingólfstorg.
Aðalstræti 8 til vinstri og Aðalstræti 6 fyrir miðri mynd eru áberandi byggingar við Ingólfstorg. vísir/valli
„Við erum að tryggja okkar rekstur til framtíðar,“ segir Kristófer Oliversson, eigandi Miðbæjarhótela, sem samið hafa um kaup á hluta af Aðalstræti 6 og 8 í Reykjavík.

Kaupverðið er tæpir 2,5 milljarðar króna að því er segir í tilkynningu frá seljandanum, fasteignafélaginu Reitum. Viðskiptin snúast um Aðalstræti 8 að frátalinni efstu hæðinni þar sem Félagsbústaðir Reykjavíkur eiga íbúðir og Aðalstræti 6 utan tveggja hæða sem ekki eru í eigu Reita.

Fyrir kaupin leigðu Miðbæjarhótel stærstan hluta eignarparts Reita í byggingunum tveimur undir hótelið Centerhotel Plaza. „Við erum í þessum rekstri til frambúðar og teljum rétt að gera þetta frekar en að þurfa að endurnýja leigusamning eftir fá ár. Leigusamningur við okkur sjálfa rennur ekki út,“ segir Kristófer.

Aðalstræti 6 hýsti til áratuga starfsemi Morgunblaðsins og var við það kennt. Kvikmyndahúsið Fjalakötturinn stóð áður þar sem  núverandi bygging í Aðalstræti 8 stendur.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×