Skoðun

Mikill áhugi á þjónandi leiðsögn

Halldór S. Guðmundsson og Kristinn Már Torfason skrifar
Á Akureyri hefur verið unnið eftir hugmyndafræði þjónandi leiðsagnar (e. gentle teaching) í tveimur búsetukjörnum frá árinu 1993 en undanfarin ár hefur markvisst verið unnið að því að innleiða aðferðina í alla þjónustu búsetudeildar Akureyrarkaupstaðar og Öldrunarheimila Akureyrar. Í þjónandi leiðsögn byggja samskipti á virðingu og umhyggju og áherslu á að skapa traust milli einstaklinga – aðstoðarþega og umönnunaraðila. Það felur í sér að refsingar, líkamlegar eða andlegar eru aldrei notaðar til að ná fram breytingu.

Mannúðleg hugmyndafræði

Þungamiðja þjónandi leiðsagnar er að þátttaka umönnunaraðila í lífi annarra hafi þann megintilgang að kenna, hlúa að og viðhalda reynslu þeirra og upplifun af tengslum, vináttu og því að vera hluti af samfélaginu. Þjónandi leiðsögn er fræðileg og reynslubundin nálgun og hefur helst verið notuð innan fötlunarfræðinnar. Nálgunin byggir á heimspekilegum og siðferðilegum grunni og kenningum um samskipti og tengsl milli einstaklinga og hvernig nýta megi það í þjónustu og umönnun. Þjónandi leiðsögn einskorðast þó ekki aðeins við einstaklinga með þroskahamlanir heldur má í raun nota nálgunina í umönnun allra einstaklinga, þar sem hún byggir á mannúðlegri hugmyndafræði.

Öldrunarheimilin og búsetudeild taka höndum saman

Undanfarin ár hefur hugmyndafræðin verið tekin í notkun á Öldrunarheimilum Akureyrar (ÖA). Unnið er að undirbúningi og innleiðingu þjónandi leiðsagnar og samþættingu með Eden-hugmyndafræðinni á ÖA. Sú vinna hófst með skipulegum hætti í ársbyrjun 2014 með þátttöku leiðandi starfsmanna í námskeiðum og ráðstefnum og nú síðast með innleiðingarferli og fræðslu til u.þ.b. 300 starfsmanna ÖA á árinu 2015 og 2016.

Lykilstarfsmenn búsetudeildar hafa sinnt fræðslu og hlutverki leiðbeinenda til nýrra starfsmanna og aðstandenda. Fræðslu- og kynningarfundir hafa verið haldnir víða um land og mikill fjöldi starfsfólks í velferðarþjónustu sveitarfélaga fengið fræðslu og kynningu á þjónandi leiðsögn. Af hálfu búsetudeildar hafa líka verið haldin námskeið fyrir nýja leiðbeinendur og erlendir fyrirlesarar og þjálfarar verið fengnir til aðstoðar, enda krafa um staðfestingu alþjóðasamtaka þjónandi leiðsagnar, fyrir nýja leiðbeinendur.

Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Skoðun

Sjá meira


×