Innlent

Vill eignarnám og skoða lengingu út í Skerjafjörð

Kristján Már Unnarsson skrifar
Formaður fjárlaganefndar Alþingis vill að flugvallarlandið í Skerjafirði, sem ríkið seldi borginni á dögunum, verði tekið til baka með eignarnámi. Þetta kom fram í viðtali við Vigdísi Hauksdóttur í fréttum Stöðvar 2. 

Sala landsins var tekin fyrir á fundi fjárlaganefndar Alþingis í morgun en fyrir tveimur árum taldi nefndin sig hafa girt fyrir afsal landsins. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra taldi sig hins vegar skuldbundinn að standa við samkomulag sem forveri hans, Katrín Júlíusdóttir, gerði við Dag B. Eggertsson skömmu fyrir síðustu þingkosningar. 

„Það er mjög sorglegt að þessi ríkisstjórn þurfi að uppfylla eitthvert Samfylkingarsamkomulag frá 2013. Mjög einkennilegt,“ segir Vigdís.

Dagur B. Eggertsson og Katrín Júlíusdóttir sömdu um sölu flugvallarlandsins þann 1. mars 2013.
Meirihluti fjárlaganefndar beitti sér fyrir að heimildargrein um afsal flugvallarlandsins yrði fjarlægð úr fjárlagafrumvarpinu og taldi sig þar með hafa komið í veg fyrir sölu þess. Nú komi fjármálaráðuneytið með aðra túlkun eftirá, segir Vigdís. 

„En þá spyr ég: Afhverju var verið að óska eftir heimildinni aftur inn í fjárlög 2014? Því þá var ekki búið að ganga frá neinu.“ 

Vigdísi finnst endurgjaldið lágt fyrir svæðið. 

„Bara 440 milljónir. Svona miðað við það sem búið er að ræða um. Ég bara lít svo á að nú er kominn verðmiði á þetta land og ég held að það væri langfarsælast fyrir alla aðila að ríkið myndi ganga þarna inn og taka landið eignarnámi,“ segir formaður fjárlaganefndar.

Reykjavíkurborg er að skipuleggja 800 íbúða byggð á umræddu svæði.
Reykjavíkurborg hefur þegar kynnt hugmyndir að nýju 800 íbúða hverfi á umræddu svæði. Þar er miðað við að rísi þétt byggð fjögurra hæða fjölbýlishúsa. 

„Þá er náttúrlega bara neyðarbrautin farin. Það er stefna Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata í borgarstjórn að flugbrautin hverfi.“ 

Vigdís telur enn hægt að bjarga brautinni. Í því sambandi má vísa til hugmynda sem Ómar Ragnarsson hefur kynnt sem málamiðlun í flugvallarmálinu.

Svona teiknaði Ómar á kortið hvernig mætti hliðra til neyðarbrautinni.Stöð 2/Arnar Halldórsson.
„Ég hef séð teikningar þar sem lagt er til að hún fari í sjó fram, - að flugvöllurinn og þessi braut verði færð út í Skerjafjörð. Það er ofsalega fín hugmynd en það er örugglega kostnaðarsamt.“

Grafísk mynd af einni útfærslu flugvallar sem víkur út í sjó. Stór hluti flugvallarsvæðisins fengist til annarra nota ef núverandi norður-suður braut yrði lokað í staðinn.

Tengdar fréttir

Bjarni sakar borgina um „óbilgirni“ en aðhefst ekki vegna sölu á landspildu

Fjármálaráðherra segir að Reykjavíkurborg hafi sýnt mikla óbilgirni með því að hraða lokun hluta Reykjavíkurflugvallar og setja innanlandsflugið í uppnám. Hins vegar sér hann enga ástæðu til að aðhafast vegna athugasemda um að ríkið hafi ekki haft skýra lagaheimild til ráðstöfunar landspildu við suðurhluta neyðarbrautarinnar.

Svona sér Ómar sátt um flugvöll

Flugmaðurinn sem lent hefur oftar á Reykjavíkurflugvelli en flestir aðrir, Ómar Ragnarsson, segir fáránlegt að einn besti möguleikinn til málamiðlunar verði strax útilokaður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×