„Það er auðveld að hugsa sér að þetta muni versna héðan í frá,“ sagði Obama fyrir fullum sal í Dallas. „Við verðum samt sem áður að hafna slíkri örvæntingu.“
Bandarískt þjóðfélag hefur verið í uppnámi vegna framferðis hvítra lögreglumanna gegn svörtum almenningi. Í hvert sinn sem fréttir berast af því að svartur maður hafi látið lífið eftir að hafa orðið á vegi lögreglumanna, þá magnast fjandskapurinn í garð lögreglunnar.
Maðurinn sem stóð fyrir árásinni í Dallas sagði að skotmörk sín hafi verið hvítir lögreglumenn og hann hafi verið reiður yfir dauðsföllum Alton Sterling og Philando Castile sem drepnir voru af lögreglu, fyrir litlar sakir að því er virðist.
Viðstaddir minningarathöfnina voru auk Obama og eiginkonu hans Michelle, Joe Biden varaforseti, George W. Bush, fyrrum Bandaríkjaforseti auk fjölda annarra fyrirmanna.
Obama og Biden hafa undanfarna daga fundað með yfirmönnum löggæslu í Bandaríkjunum til þess að skoða hvernig hægt sé að koma á umbótum á löggæslu í Bandaríkjunum.