Erlent

Fjöldi fórnarlamba í áramótaárásunum mun meiri en talið var

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Í skýrsla lögreglunnar í Köln um árásirnar á konur á nýársnótt sagði að lögregluþjónar hafi ekki ráðið við ástandið sem skapaðist.
Í skýrsla lögreglunnar í Köln um árásirnar á konur á nýársnótt sagði að lögregluþjónar hafi ekki ráðið við ástandið sem skapaðist. vísir/getty
Mun fleiri konur urðu fyrir kynferðislegri áreitni og annars konar ofbeldi í þýskum borgum síðustu áramót en áður var talið. Gögn frá lögreglunni, sem lekið var til Suddeutsche Zeitung, benda til þessa.

Að mati yfirvalda var ráðist gegn rúmlega 1.200 konum í fjölda þýskra borga. Flestar árásirnar áttu sér stað í Hamburg og Köln.

Í upphafi heyrðist ekkert frá lögreglunni en eftir því sem orðrómurinn breiddist út um samfélagsmiðla reyndist erfiðara fyrir lögregluna að þagga málið niður. Umfang málsins varð hins vegar ekki ljóst fyrr en nú.

Talið er að yfir 2.000 karlmenn hafi tekið þátt í árásunum. Samkvæmt upplýsingum er búið að bera kennsl á ríflega hundrað og fjórir hafa verið sakfelldir fyrir sinn þátt. Um helmingur þeirra sem búið er að bera kennsl á eru menn af erlendu bergi brotnir sem nýlega komu til landsins. Hinir eru innfæddir.

„Við gerum ráð fyrir því að stór hluti þessara glæpa verði aldrei rannsakaður til fulls,“ segir Holger Münch lögreglustjóri þýsku sambandslögreglunnar. Fáar eftirlitsmyndavélar séu til staðar í landinu og lögreglan hafi ekki mikið til að moða úr.

Málið varð meðal annars til þess að strangari ákvæði um nauðganir tóku gildi sem að auki munu gera dómstólum auðveldara fyrir að sakfella fólk fyrir slík brot.


Tengdar fréttir

Ofbeldi gegn konum í Köln vekur mikla reiði

Lögreglan í Köln hefur viðurkennt margvísleg mistök í tengslum við kynferðisofbeldi sem tugir kvenna urðu fyrir á gamlársdag. Innanríkisráðherra Þýskalands krefst skýringa. Lögreglustjórinn segist ekki ætla að segja af sér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×