Erlent

Eiginkona forseta Nígeríu segist ekki ætla að styðja hann nema hann hristi upp í ríkisstjórninni

Birgir Olgeirsson skrifar
Hjónin Aisha Buhari og Muhammadu Buhari.
Hjónin Aisha Buhari og Muhammadu Buhari. Vísir/EPA
Eiginkona forseta Nígeríu hefur varað hann við að hann muni ekki njóta stuðnings hennar í næstu kosningum hefur hann hristir ekki upp í ríkisstjórn sinni.

Forseti Nígeríu heitir Muhammadu Buhari en eiginkona hans, Aisha Buhari, sagði í viðtali við breska ríkisútvarpið BBC að eiginmaður hennar þekki ekki flesta af þeim æðstu embættismönnum landsins sem hann hefur skipað.

BBC segir Buhari hafa verið kjörinn í embætti forseta Nígeríu í fyrra gegn loforði hans um að uppræta spillingu og frændhygli í stjórnkerfi landsins.

Þessi ákvörðun eiginkonu hans að opinbera áhyggjur sínar hefur komið mörgum í opna skjöldu, en það er talið vera til marks um þá óánægju sem ríkir í garð leiðtogahæfni forsetans núverandi.

„Forsetinn þekkir ekki 45 af þeim 50 sem hann skipar og ég þekki þá ekki heldur, þrátt fyrir að hafa verið eiginkona hans í 27 ár,“ sagði Aisha við BBC.

Hún vildi meina að ríkisstjórninni hefði verið rænt af hópi fárra manna. Spurð nánar út í þær ásakanir og hverjir stæðu að baki valdaráninu neitaði hún að fara nánar út í það.

„Þið sjáið þá í sjónvarpinu.“ 

Þegar hún var spurð hvort að maðurinn hennar væri enn þá æðsti valdamaður landsins svaraði hún: „Það er fólksins að ákveða.“

Hún sagði eiginmann sinn ekki hafa ákveðið hvort hann muni bjóða sig fram árið 2019. „Hann á eftir að segja mér það en ég hef ákveðið sem eiginkona hans að ef þetta verður svona fram til 2019, þá muni ég ekki hjálpa honum við kosningabaráttuna og biðja konur um að kjósa hann eins og ég gerði í síðustu kosningabaráttu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×