Innlent

Davíð vitnaði í sjálfan sig í viðtali í hádegisfréttum Bylgjunnar

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Davíð Oddsson við höfuðstöðvar 365 í Skaftahlíð á sunnudaginn þegar hann kynnti framboð sitt til forseta.
Davíð Oddsson við höfuðstöðvar 365 í Skaftahlíð á sunnudaginn þegar hann kynnti framboð sitt til forseta. vísir/Ernir
Davíð Oddsson, fyrrverandi forsætisráðherra og forsetaframbjóðandi, heldur ótrauður áfram þrátt fyrir að mælast með lítið fylgi í skoðanakönnun fréttastofu 365 sem birtist í Fréttablaðinu í dag.

„Þessi könnun er tekin eftir einn dag þar sem framboð mitt hefur legið fyrir og Guðni Jóhannesson fær mjög fína útkomu og ég óska honum til lukku með það. Ég las hana yfir þegar ég var að borða grautinn í morgun og ég verð að viðurkenna að ég bætti nokkrum rúsínum út á til að auka sætabragðið að öðru leyti er ekkert um þetta að segja,“ sagði Davíð í viðtali í hádegisfréttum Bylgjunnar.

Hann var spurður að því hvort könnunin hefði ekki dregið neitt úr honum og hvort hann hafi ekki íhugað að hætta bara við.

„Nei, ætli ég vitni ekki bara í karlinn sem sagði það má aldrei bogna þó á móti blási, það má aldrei hika þó það herði að, það má ekki einu sinni líta undan þó sýnin sé ekki frýnileg. Það má sem sagt aldrei svíkja sjálfan sig og það sem maður í hjarta sínu trúir á fyrir stundarávinning eða stundarstöðu.“

Þarna vitnaði Davíð í sjálfan sig þar sem hann lét nánast nákvæmlega sömu orð falla í ræðu á landsfundi Sjálfstæðisflokksins árið 2009 en klippuna af því má sjá hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×