Viðskipti innlent

Fjárfestar áberandi í Panama- skjölunum

Þórdís Valsdóttir skrifar
Panamaskjölunum var lekið frá lög­fræðistof­unni Mossack Fon­seca sem staðsett er í Panama.
Panamaskjölunum var lekið frá lög­fræðistof­unni Mossack Fon­seca sem staðsett er í Panama. Fréttablaðið/AFP
Á mánudag gerðu Alþjóðasamtök rannsóknarblaðamanna, ICIJ, gagnabanka sem unninn var úr hluta Panama-skjalanna aðgengilegan almenningi. Þar er að finna fjölmargar færslur sem tengjast íslenskum einstaklingum og fyrirtækjum.

Nokkrir aðilar sem þar er að finna eru tengdir einu eða fleiri aflands­félögum með einhverjum hætti.

Þegar flett er upp í grunninum má finna nöfn meira en 150 Íslendinga, þar á meðal fjölmargra þekktra einstaklinga úr íslensku viðskiptalífi á árunum fyrir hrun. Á meðal þeirra eru Hreiðar Már Sigurðsson og Ólafur Ólafsson. Þeir hlutu báðir dóm í Al-Thani-málinu svokallaða og afplána nú refsingu sína á áfangaheimilinu Vernd.

Nafn Kristjáns Gunnars Valdimarssonar, lektors í skattarétti við Háskóla Íslands, er einnig að finna í gagnagrunninum. Í Kastljósi þann 3. apríl kom fram að Kristján Gunnar hafi vísað til lektorsstöðu sinnar innan háskólans þegar hann átti í samskiptum við lögmannsstofuna Mossack Fonseca á Panama. Háskóli Íslands komst nýverið að þeirri niðurstöðu að engin ástæða væri til þess að hefja formlega athugun á máli Kristjáns Gunnars.

Kristján Gunnar á langan feril í skattaráðgjöf að baki og gegndi áður stöðu skattrannsóknarstjóra og stýrði eftirlitsdeild ríkisskattstjóra.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 11. maí. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×