Innlent

Háskólanemar vilja menntamál í forgang: „Fimm ár þangað til ég flyt út og kem ekki til baka“

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Háskólanemar krefjast aðgerða.
Háskólanemar krefjast aðgerða. vísir/Ernir
Stúdentafélög allra háskóla á Íslandi hafa hleypt af stokkunum undirskriftasöfnun á þar sem þess er krafist að stjórnvöld setji menntamál í forgang. Formenn stúdentafélaganna eru ómyrk í máli þegar kemur að menntamálum hér á landi.

„Nemar finna fyrir lélegum kennsluháttum, nemendur eru allt að 500 saman í tímum hjá einum kennara,“ segir Kristófer Már Maronsson, formaður Stúdentaráðs Háskóla Íslands. „Það er ekki hægt að kenna 500 manns í einu og kenna þeim vel. Fólk er ekki virkt í kennslustundum líkt og það er í bestu háskólum heims.“

Vara stúdentafélögin við því að meðalframlag íslenska ríkisins á hvern ársnema í háskóla sé tæplega 1,3 milljónir króna en rúmlega 2,2 milljónum króna að meðaltali annars staðar á Norðurlöndum. Benda þau á að ekki sé gert ráð fyrir því að hækka framlagið hér á landi þrátt fyrir svo sé mælt fyrir um í aðgerðaáætlun Vísinda- og tækniráðs.

Krefjast stúdentafélögin að stjórnvöld setji menntamál í forgang og framfylgi fyrrgreindum markmiðum um fjármögnun háskólakerfisins með það að leiðarljósi að jafnmikið fjármagn fylgi hverjum háskólanema hér á landi og nemum annars staðar á Norðurlöndum árið 2020.

Kristófer segir að háskólanemar líti ekki björtum augum á framtíð sína hér á landi og segir að allar líkur séu á því að hann muni flytja af landi brott fyrr en síðar.

„Eins og staðan er í dag eru innan við fimm ár þangað til ég flyt út og ég er ekki á leiðinni til baka,“ segir Kristófer. „Það er voða lítil framtíð fyrir ungt fólk á Íslandi. Það er lítil framþróun hér á landi og lítið um þau störf sem ungt fólk vill vinna.“

Þessu vilja stúdentafélögin breyta og hafa þess vegna hafið undirskriftasöfnun sem afhenda á nýrri ríkisstjórn. Skoða má framtakið og skrifa undir á www.haskolarnir.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×