
„Það væri mögulegt að skerpa betur á því til hvers kjararáð á að horfa við ákvarðanir sínar,“ segir Ragnhildur Helgadóttir, prófessor og forseti lagadeildar Háskólans í Reykjavík. „Ef fólk vill halda þessu kerfi þá væru minnstu breytingarnar sem svöruðu því sem verið að gagnrýna núna, að kveða skýrar á um til hvers skal litið og ef til vill láta taka ákvarðanir oftar.“?
Kjaradómi, fyrirrennara kjararáðs, var komið á fót árið 1962. Í upphafi var hann lögmæltur gerðardómur sem komst að niðurstöðu í kjaradeilum opinberra starfsmanna við ríkið. Með lagabreytingu frá árinu 1992 var hann færður í þá mynd sem við þekkjum í dag, að vera sjálfstæð stjórnsýslunefnd með úrskurðarvald í þessum málum.
Það hefur hins vegar ekki alltaf verið svo að kjararáð, eða Kjaradómur, ákveði laun æðstu embættismanna. Í upphafi heyrðu aðeins hæstaréttardómarar og ráðherrar undir dóminn. Smám saman fjölgaði í þeim hópi. Þingfararkaupið var til að mynda ekki fært undir dóminn fyrr en árið 1980.

„Það er spurning hvort óháð nefnd eigi að ákveða laun þingmanna eða þeir sjálfir,“ segir Trausti Fannar Valsson, dósent við lagadeild Háskóla Íslands. Hann bendir á að sveitarstjórnir þurfi sjálfar að ákveða laun sín og bregði margar á það ráð að binda þau við þingfararkaup. „Hví ættu þingmenn ekki að geta tekið ákvörðun um laun sín með almennum lögum líkt og um önnur mikilvæg málefni í samfélaginu?“
Allur háttur er á því hvernig laun dómara eru ákveðin. Í Noregi eru laun hæstaréttardómara ákveðin árlega af þinginu og laun héraðsdómara af ráðherra. Sé litið til héraðsdóms í máli Guðjóns St. Marteinssonar gegn ríkinu er óvíst hvort það standist stjórnarskrá að þingmenn hlutist til um laun dómara.
