Erlent

Stöðva vopnasölu til Filippseyja vegna mannréttindabrota

Samúel Karl Ólason skrifar
Rodrigo Duterte, forseti Filippseyja.
Rodrigo Duterte, forseti Filippseyja. Vísir/AFP
Utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna hefur hætt við að selja yfirvöldum Filippseyja vopn. Ríkin hafa staðið í deilum eftir að Rodrigo Duterte, forseti Filippseyja, brást mjög harðlega við gagnrýni á „stríð“ sitt gegn fíkniefnum í landinu.Þúsundir meintir fíkniefnasalar og neytendur hafa verið myrtir af lögreglu og vopnuðum gengjum borgara í Filippseyjum frá því Duterte tók við völdum þann 30. júní.

Til stóð að Bandaríkin myndu selja lögreglunni í Filippseyjum um 26 þúsund árásarriffla, en hætt var við söluna þegar æðsti þingmaður Demókrataflokksins í utanríkismálanefnd öldungaþingsins sagðist vera á móti sölunni og hann ætlaði sér að koma í veg fyrir hana.

Samkvæmt Reuters sögðu aðstoðarmenn þingmannsins Ben Cardin að honum væri mjög illa við að vopn frá Bandaríkjunum yrðu notuð til mannréttindabrota.

Bandaríkin, Evrópusambandið, Sameinuðu þjóðirnar og fjöldi mannréttindasamtaka hafa gagnrýnt aðgerðirnar gegn fíkniefnum í Filippseyjum og segja þær augljóst brot á mannréttindum íbúa landsins. Duterte hefur hins vegar brugðist hinn reiðasti við allri gagnrýni. Hann hefur sagt opinberlega að Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, sé „hórusonur“ og hann eigi að „fara til helvítis“.

Duterte hefur nú lýst því yfir að Guð hafi skipað honum að hætta að blóta.

Fyrr í mánuðinum fór Duterte í opinbera heimsókn til Kína og lýsti því yfir að Filippseyjar „væru hættar með“ Bandaríkjunum. Hann ætlaði að snúa sér til Kína og Rússlands.

Yfirvöld Filippseyja tilkynntu í gær að Kínverjar hefðu hleypt sjómönnum frá Filippseyjum að Scarsborough grynningunum í Suður-Kínahafi í fyrsta sinn um árabil. Kínverjar hertóku grynningarnar þar sem finna má rif og sandrif árið 2012, en grynningarnar eru í lögsögu Filippseyja.


Tengdar fréttir

Duterte líkir sjálfum sér við Hitler

Forseti Filippseyja segir að á Fillipseyjum væru þrjár milljónir eiturlyfjasjúklinga og að hann myndi glaður vilja slátra þeim öllum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×