Erlent

Þrír látnir eftir öflugan fellibyl á Haítí

Þrír eru látnir eftir að fellibylurinn Matthew kom á land á Haítí í morgun. Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna segir fellibylinn ógna milljónum barna en hann er einn sá öflugast sem gengið hefur á land þar í meira en áratug.

Mikill viðbúnaður hefur verið á Haítí frá því vitað var af komu fellibylsins Matthews en hann gekk á land í morgun. Styrkur hans er mikill en vindhraði fellibylsins hefur mælst allt að 65 metrum á sekúndu í hviðum. Fjölmagir höfðu leitað skjóls áður en fellibylurinn kom á land en þrír eru taldir hafa farist af völdum hans. Matthew er öflugasti fellibylur sem riðið hefur yfir Haítí í meira en áratug.

Barnahjálp sameinuðuþjóðanna óttast að meira en fjórar milljónir barna séu í bráðri hættu vegna hamfaranna. Talið er að afleiðingar óveðursins verði umtalsverðar en miklar rigningar hafa fylgt því og er hætta á að flóð kunni að fylgja í kjölfarið.

Sex ár eru síðan kröftugur jarðskjálfti reið yfir landið sem varð 200.000 manns að bana og hafast þúsundir manna enn við í tjaldbúðum vegna hans. Óttast er að farsóttir geti breiðst út á Haítí eftir að óveðrinu slotar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×