Innlent

Samfylkingin vill greiða vaxtabætur fyrirfram til að aðstoða fólk við húsnæðiskaup

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Oddný G. Harðardóttir, formaður Samfylkingarinnar
Oddný G. Harðardóttir, formaður Samfylkingarinnar Mynd/Samfylkingin
Samfylkingin kynnti stefnu sína um aukinn valkost í húsnæðismálumá blaðamannafundi í Norræna húsinu í dag. Hún felur í sér að vaxtabætur séu greiddar út fyrir fram næstu fimm ár til að fjármagna útborgun við húsnæðiskaup fyrir þá sem ekki eiga húsnæði.

Í tilkynningu frá Samfylkingunni segir að stærsta vandamál ungs fólk sem er að kaupa sína fyrstu íbúð sé að kljúfa útborgunina, sem er mismunur á kaupverði og hámarksláni. 

Þá segir einnig að margar fjölskyldur séu fastar á ótryggum leigumarkaði þar sem stærstu útgjöld heimilisins séu í leigu og mánaðarleiga er hærri en það sem fólk myndi borga af húsnæðisláni. Börn geti lent á hrakhólum þegar íbúðir eru teknar úr langtímaleigu í skammtímaleigu til ferðamanna.

Með því að greiða vaxtabætur næstu fimm ára út fyrir fram er hægt að styrkja fólk til kaupa á íbúð um:

• 3,0 milljónir króna fyrir fólk í sambúð

• 2,5 milljonir króna fyrir einstætt foreldri

• 2,0 milljónir króna fyrir einstakling

Þrjár milljónir króna duga til dæmis fyrir útborgun á 20 milljón króna íbúð miðað við. 85% lán, eða sem stór hluti útborgunar í dýrari eign. Það er stuðningur sem kemur unga fólkinu úr foreldrahúsum eða námsmannaíbúðum og leigjendum í öruggt húsnæði.

Í tilkynningunni segir að forskotið fái þeir sem ekki eiga íbúð og ættu rétt á vaxtabótum. Þær geti að hámarki orðið 600 þúsund krónur á ári fyrir fólk í sambúð, 500 þúsund fyrir einstætt foreldri og 400 þúsund fyrir einstakling. Vaxtabótakerfið tekur mið af bæði tekjum og eignum einstaklinga. Þau sem ekki hafa átt fasteign síðustu þrjú ár á undan, eiga rétt á úrræðinu.

„Forskot á fasteignamarkaði er liður í kosningastefnu Samfylkingarinnar. Í henni felst einnig veruleg fjölgun almennra leiguíbúða um 4000 á kjörtímabilinu auk 1000 námsmannaíbúða um allt land. Einnig að tvöfalda stuðning við barnafjölskyldur og útrýma barnafátækt á Íslandi, en árið 2014 bjuggu 6.100 börn við efnislegan skort á Íslandi, hlutfallslega flest í leiguhúsnæði.“








Fleiri fréttir

Sjá meira


×