Myndin sem um ræðir er af hinni i níu ára gömlu víetnömsku stúlku Kim Phuc, flýjandi nakin undan napalm-sprengjuárás í Víetnam-stríðinu á sjöunda áratug síðustu aldar. Mikil umræða hefur skapast um myndina eftir að ritstjóri Aftenposten skrifaði Mark Zuckerberg harðort opið bréf þar sem hann gagnrýndi fyrirtækið harkalega fyrir að koma í veg fyrir birtingu á myndinni.
Erna Solberg vildi eðli málsins samkvæmt leggja orð í belg til stuðnings ritstjóranum og setti inn örlitla færslu honum til stuðnings inn á Facebook þar sem með fylgdi myndin umrædda.
Sjá einnig: Ritstjóri Aftenposten segir Facebook ekki geta greint á milli barnakláms og frægra stríðsljósmynda
Skellti Solberg sér svo upp í flugvél frá Osló til Þrándheims en þegar hún var lent sá hún að Facebook hafði eytt færslunni og vísað til reglna um að ekki mætti birta myndir af nöktum stúlkum á samfélagsmiðlinum.
Segir Solbert að þrátt fyrir að Facebook meini vel sé þó mikilvægt að koma í veg fyrir slíka ritskoðun á sögunni.
„Ég vil að börnin mín alist upp í heimi þar sem sagan er kennd eins og hún gerðist. Þar sem menn læra af sögulegum viðburðum og mistökum,“ segir Solberg í annarri færslu. „Með því að fjarlægja svona myndir er Facebook að ritskoða söguna.“
Opið bréf ritstjóra Aftenposten hefur vakið mikla athygli og er fjallað um það á öllum helstu miðlum, þar á meðal BBC og CNN.