Lífið

Leita að páskaeggjum í Viðey

Atli Ísleifsson skrifar
Leikurinn gengur út á það að finna sem flest lítil páskaegg.
Leikurinn gengur út á það að finna sem flest lítil páskaegg. Mynd/ Roman Gerasymenko
Boðið verður upp á páskaeggjaleit í Viðey í dag og verður ræst klukkan 13.30 við Viðeyjarstofu.

Í tilkynningu frá Borgarsögusafni Reykjavíkur segir að leikurinn gangi út á það að finna sem flest lítil páskaegg, en einnig verða nokkrir stærri vinningar fyrir þá sem finna sérstaklega merkt egg.

„Siglt verður frá Skarfabakka kl. 13:15. Þátttakendur geta að sjálfsögðu slegist í hópinn síðar, en leikurinn gengur þó út á þá meginreglu að „fyrstur kemur, fyrstur fær“ en þó þannig að hófs sé gætt svo sem flestir fái egg. Afmörkuð verða sérstök leitarsvæði, þar á meðal eitt fyrir yngri kynslóðina (6 ára og yngri),“ segir í tilkynningunni.

Páskaeggjaleitin er samstarfsverkefni Eldingar, Nóa Síríus, Góu, Viðeyjarstofu og Borgarsögusafns Reykjavíkur.

Brottfarir verða frá Skarfabakka klukkan 13:15, 14:15 og 15:15, en brottfarir frá Viðey til Skarfabakka klukkan 13:30, 14:30, 15:30 og 16:30.

Frítt er í páskaeggjaleitina en gestir þurfa að greiða í ferjuna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×