Enski boltinn

Henderson efaðist um framlag sitt sem fyrirliði Liverpool

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Jordan Henderson efast ekki lengur.
Jordan Henderson efast ekki lengur. vísir/getty
Jordan Henderson, miðjumaður Liverpool, viðurkennir að hann efaðist um framlag sitt sem fyrirliði liðsins á síðustu leiktíð en hann fékk það vandasama verkefni að taka við bandinu eftir að Steven Gerrard yfirgaf Anfield. Hann segist ekki í nokkrum vafa um eigið ágæti lengur.

Þessi 26 ára gamli landsliðsmaður glímdi við mikið af meiðslum á síðustu leiktíð og spilaði ekki nema 17 leiki í ensku úrvalsdeildinni á sínu fyrsta tímabili sem fyrirliði.

„Mér hefur aldrei liðið eins og ég vildi ekki fyrirliðabandið en það komu tímar á síðustu leiktíð þar sem ég var langt niðri vegna þess að ég var ekki að spila og þá efaðist ég um framlag mitt sem fyrirliði,“ segir Henderson.

„Ég gat ekki hjálpað til þannig Milly [James Milner], sem er varafyrirliði, þurfti að takast á við hlutverkið.“

„Þetta var mjög erfiður tími og ég var langt niðri. Það var margt í gangi í hausnum á mér á þessum tíma en aldrei hugsaði ég að mig langaði ekki að vera fyrirliði. Þetta snerist bara um það, að mér fannst ég ekki vera að skila mínu inn á vellinum. Ég er kominn í gegnum þetta núna,“ segir Jordan Henderson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×