Íslenski boltinn

Tæki aldrei áhættu með líf

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Harpa er markahæst í Pepsi-deild kvenna með 20 mörk í 15 leikjum.
Harpa er markahæst í Pepsi-deild kvenna með 20 mörk í 15 leikjum. vísir/stefán
Harpa Þorsteinsdóttir hefur haldið áfram að spila með liði sínu, Stjörnunni, eftir að hún tilkynnti að hún væri barnshafandi. Þessi stórhættulegi sóknarmaður hefur ekki misst af leik með Stjörnunni í Pepsi-deild kvenna í sumar og er langmarkahæsti leikmaður deildarinnar með 20 mörk í fimmtán leikjum.

Harpa hefur spilað tvo leiki með Stjörnunni eftir að það var gert opinbert að hún væri ólétt og skoraði hún tvívegis í 3-1 sigri Stjörnunnar á ÍA á þriðjudag, komin þrettán vikur á leið.

„Ég spilaði jafn lengi eða lengur með fyrra barn mitt. Og þá var enginn að kippa sér upp við neitt,“ segir Harpa í samtali við Fréttablaðið.

„Ég veit fjölmörg dæmi um konur sem hafa stundað sína íþrótt jafn lengi og ég eða lengur. Enda væri ég ekki að gera þetta nema í góðu samráði við fagaðila,“ bætir hún við og nefnir Herdísi Sigurbergsdóttur handboltakonu.

Myndi aldrei taka neina áhættu

„Það eru ekki það mörg ár síðan ég horfði á Dísu spila með Stjörnunni með bumbuna út í loftið. En á meðan ég er að gera þetta í góðu samráði við lækna tel ég ekki að ég sé að taka neina áhættu, sem ég myndi vitanlega aldrei gera.“

Hún segist ekki hafa neinar áhyggjur, hversu litlar sem þær kynnu að vera, með því að spila áfram með liði sínu.

„Ekki hingað til. Ef ég teldi að það væri einhver áhætta fólgin í því að spila og að það myndi á einhvern hátt skaða mig eða fóstrið þá myndi ég ekki spila. Það þyrfti það mikið högg og ég þyrfti hreinlega að lífbeinsbrotna. Það eru meiri líkur á að það gerist þegar ég er að keyra heim úr vinnunni,“ segir hún.

Harpa vill ekki gefa upp hvort hún spilar leikinn mikilvæga á morgun.vísir/stefán
Vil ekki neinn afslátt

Þorsteinn Halldórsson, þjálfari Breiðabliks, sagði eftir sigur liðsins á ÍBV í fyrrakvöld að Harpa væri með því að spila að setja aðra leikmenn í óeðlilega stöðu. Ummæli hans hafa vakið athygli.

„Þessi orð hafa engin áhrif á mig. Aðrir leikmenn þurfa ekki að hafa neinar áhyggjur. Leikmenn sem hafa lent í höfuðmeiðslum halda áfram að spila og ættu aðrir leikmenn að hafa áhyggjur af því að fara upp í skallaeinvígi gegn slíkum leikmönnum?“ spyr Harpa.

„Fólk verður að treysta því að ég sé að taka rétta ákvörðun og þó svo að ég sé inni á vellinum þá á það ekki að veita mér neinn afslátt.“

Sálfræðihernaður hjá Þorsteini

Stjarnan og Breiðablik mætast á morgun í hálfgerðum úrslitaleik deildarinnar. Stjarnan er með tveggja stiga forystu á Breiðablik á toppnum þegar þrjár umferðir eru eftir. Telur hún að orð Þorsteins séu að einhverju leyti miðuð að því að taka einn besta leikmann deildarinnar úr umferð fyrir stærsta leik sumarsins?

„Ég er 100 prósent viss um það. Þetta er líka sálfræðihernaður. Það vil ég að minnsta kosti meina,“ segir hún en bætir þó við að Þorsteinn hafi haft samband við hana í gær og gert henni ljóst að hann meinti ekkert slæmt með ummælum sínum. Það sé allt í góðu þeirra á milli.

Harpa vill ekki segja hvort hún muni spila á morgun.

„Þetta er bara persónuleg ákvörðun sem ég þarf að taka. Það sem mestu máli skiptir fyrir mig er að fólk haldi að ég sé ekki að leika mér að þessu og haldi að ég sé að taka áhættu með líf.“

Óvíst er hvort Harpa verði með á EM á næsta ári.vísir/eyþór
Landsliðið kom ekki til greina

Harpa er ekki bara markahæsti leikmaður Pepsi-deildar kvenna heldur markahæsti leikmaður allra liða í undankeppni EM 2017 með tíu mörk. Ísland tryggir sig á EM með því að fá eitt stig úr síðustu tveimur leikjum undankeppninnar í september en Harpa var ekki valin í landsliðið fyrir þá leiki.

„Ég gaf ekki kost á mér í það verkefni og það kom aldrei til tals. Ég ræddi vel og lengi við Frey [Alexandersson, landsliðsþjálfara] og það kom aldrei til greina okkar á milli,“ segir hún.

Harpa á að eiga í mars en hefur áður sagt í viðtölum að það sé óraunhæft að meta möguleika hennar nú á að vinna sér aftur sæti í landsliðinu næsta vor, fyrir EM.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×