Viðskipti innlent

Dótturfélag Icelandic Group á Spáni selt

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Vörumerki félagsins, Icelandic Seafood, fylgir ekki með í kaupunum.
Vörumerki félagsins, Icelandic Seafood, fylgir ekki með í kaupunum. Vísir/Óskar
Icelandic Group hefur komist að samkomulagi um sölu á dótturfélagi sínu á Spáni, Icelandic Ibérica, til Solo seafood ehf. Vörumerki félagsins, Icelandic Seafood, fylgir ekki með í kaupunum.

Í tilkynningu frá Icelandic Group segir að markmið kaupanda sé að efla sölu og markaðssetningu á íslenskum sjávarafurðum undir vörumerkinu Icelandic Seafood í Suður-Evrópu.

Samhliða kaupsamningi gerðu aðilar með sér leyfissamning sem gefur kaupanda rétt á notkun á vörumerkinu Icelandic Seafood í Suður-Evrópu. Framkvæmdastjóri Icelandic Ibérica undanfarin tuttugu ár, Hjörleifur Ásgeirsson, mun áfram stýra félaginu.

Í vor tilkynnti stjórn Icelandic Group um söluferli á Icelandic Ibérica. Margir aðilar sýndu kaupum á félaginu áhuga og var niðurstaða fyrrgreinds ferlis að ganga til samninga við Solo seafood. Kaupsamningur var undirritaður með fyrirvara um samþykki Seðlabanka Íslands og samkeppnisyfirvalda á Spáni.

Íslandsbanki var ráðgjafi Icelandic Group en fyrirtækjaráðgjöf KVIKU var ráðgjafi kaupanda.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×