Lífið

Hafa safnað hálfum milljarði í góðgerðarmál

Viktoría Hermannsdóttir skrifar
Gróa Ásgeirsdóttir, Elísabet Sveinsdóttir og Guðný Pálsdóttir eru samhentar vinkonur sem hófu að safna til góðgerðarmála eftir veikindi Gróu og nú átta árum seinna eru þær enn að.
Gróa Ásgeirsdóttir, Elísabet Sveinsdóttir og Guðný Pálsdóttir eru samhentar vinkonur sem hófu að safna til góðgerðarmála eftir veikindi Gróu og nú átta árum seinna eru þær enn að. Visir/Ernir
Það sem við höfum lært af þessu er að allt er hægt ef viljinn er fyrir hendi. Það þarf bara að henda sér í hlutina. Það er ótrúlegt hvað hver og einn getur haft mikil áhrif,“ segja þær Elísabet Sveinsdóttir, Gróa Ásgeirsdóttir og Guðný Pálsdóttir, konurnar að baki átakinu Á allra vörum.

Átakið var stofnað árið 2008 eftir að Gróa hafði greinst með brjóstakrabbamein og gengið í gegnum meðferð vegna þess.

Miklar vinkonur

Þær Gróa og Guðný voru að vinna saman á þessum tíma og fengu hugmynd um að láta gott af sér leiða eftir meðferð Gróu. Þær hittu Elísabetu að máli og ákváðu þær að hrinda af stað söfnun með því að selja gloss um borð í flugvélum Icelandair og vekja um leið athygli á brjóstakrabbameini. Átakið hefur heldur betur vaxið mikið upp frá því og hafa þær safnað hátt í hálfum milljarði í peningum til hinna ýmsu góðgerðarverkefna. „Reyndar hátt í milljarð ef talin væri öll vinnan og annað framlag en peningar sem gefið hefur verið til safnananna,“ segir Elísabet.

Stöllurnar eru miklar vinkonur og segja það lykilatriði til þess að svona gangi upp. Það er gríðarleg vinna að baki því að leiða slíkt átak og í mörg horn að líta. Þetta er þeirra framlag og sjálfboðavinna, enda allar í fullri vinnu og yfirbyggingin er engin. „Við hittumst bara á kaffihúsum hér og þar. Tölum mikið saman í síma og skipuleggjum okkur þannig,“ segir Guðný.

„Hugmyndafræðin gengur út á að velja eitt málefni á ári – málefni sem þarfnast athygli og aðstoðar. Síðan er ákveðið fyrir hverju skal safna, en það verður að liggja skýrt fyrir áður en átakið hefst,“ segir Gróa. „Söfnunin er ekki endilega aðalmálið heldur veljum við málefni sem við teljum að þarfnist athygli almennings og fái fólk til að spá í hlutina, fái meiri umræðu,“ segir Elísabet og hinar taka undir. „Við viljum alltaf finna málefni sem hjartað slær fyrir og það má heldur ekki vera of þekkt því við viljum hjálpa til við að kynna það.“

Gott fólk með í baráttunni

Verkefnin sem safnað hefur verið fyrir eru fjölmörg; Krabbameinsfélagið, Styrktarfélag krabbameinssjúkra barna, Ljósið, Neistinn, Leiðarljós, geðheilbrigðismál og á síðasta ári var safnað fyrir samtökin Erindi sem berjast fyrir bættum samskiptum meðal barna og unglinga. Safnað var fyrir samskiptasetri fyrir þá sem glíma við einelti, foreldra og fjölskyldur þeirra. „Átakið vakti mikla umræðu um einelti. Það komu margir fram og sögðu frá einelti sem þeir höfðu orðið fyrir. Þetta opnaði á umræðuna,“ segir Gróa. Í gegnum árin hafa stöllurnar haft með sér mikið af góðu fólki þar sem bæði auglýsingaherferðir og sjónvarpsauglýsingar hafa verið framleiddar til þess að vekja athygli á því málefni sem tekið er fyrir hverju sinni. „Við höfum átt því láni að fagna að vinna með landsliðsfólki í auglýsingagerð. Auglýsingastofan Pipar hefur stýrt herferðunum fyrir okkur og svo leikstjórarnir Gunni og Sammi sem eru nú hjá Stórveldinu hafa framleitt sjónvarpsefni.“

Eins og barnið okkar

Þegar þær fóru af stað árið 2008 grunaði þær ekki hvað Á allra vörum yrði stórt og myndi hafa mikil áhrif í samfélaginu. „Við ætluðum bara að prófa eitt ár. Ég kynntist í gegnum veikindi mín þessari frábæru heilbrigðisþjónustu og langaði að gefa eitthvað til baka. Fyrsta árið tókum við þátt í að safna fyrir nýjum brjóstamyndavélum fyrir krabbameinsfélagið sem greina brjóstakrabbamein fyrr hjá ungum konum, við komum eiginlega inn með síðustu greiðsluna fyrir þeim,“ segir Gróa. „Síðan þá höfum við verið eins og óslitið blað saman allar þrjár í þessu. Upphaflega ætluðum við bara að gera þetta einu sinni. Við sögðum alltaf ef hjartað slær ekki með okkur í þessu, heldur bara vinna þá hættum við. En auðvitað er þetta bara eins og barnið okkar, okkur þykir undurvænt um Á allra vörum,“ segir Guðný.

Átta mánaða undirbúningur

Árið 2009 var komið að máli við þær og þær beðnar um að taka þátt í söfnun fyrir SKB, styrktarfélag krabbameinssjúkra barna. „Við ákváðum að halda áfram þegar SKB kom að máli við okkur þar sem þau vantaði svo hvíldarheimili fyrir krabbameinsveik börn í meðferð og fjölskyldur þeirra þar sem allur búnaður væri fyrir barnið og þarfir þess. Við hentum okkur í það verkefni og uppskárum einhverjar 55 milljónir auk þess sem við fengum lóð, uppgröft fyrir húsinu, teikningar, húsbúnað og fleira,“ segir Gróa og þær taka fram að það megi heldur ekki vanmeta eða gleyma þeim gjöfum sem koma ekki í formi peninga.

Undirbúningsvinna fyrir hvert átak tekur um átta mánuði. Það þarf að hafa samband við ýmsa. „Guðný er með símanúmer allra ráðamanna í símanum sínum og þeir svara alltaf þegar hún hringir,“ segir Elísabet og þær skella upp úr. Þær segja tengslanet sitt hafa hjálpað til í söfnunum. „Við erum allar ólíkar og með mismunandi tengslanet og áherslur. Þess vegna vinnum við líka vel saman. Það verður til einhver ofurkraftur þegar við vinnum saman.“





Í gegnum starfið hafa þær kynnst ýmsum hliðum heilbrigðiskerfisins. „Þetta land myndi ekki fúnkera í heilbrigðismálum og alls konar undirmálshlutum, ef það væri ekki fyrir konur og menn með hugsjón í þessum málum. Það er svo magnað að kynnast því hvað lítill hópur fólks er að gera mikilvæga hluti fyrir alls konar sem maður hafði ekki hugmynd um,“ segir Gróa og þær nefna Hringskonur sem dæmi.

Grunnstoðirnar ekki í lagi 

Þær segja vel hægt að reka hér nánast fullkomið heilbrigðiskerfi ef grunnstoðir þess væru í lagi. Stjórnvöld þurfi einfaldlega að sameinast um það með þjóðinni að koma þessum hlutum í lag. „Við áttum okkur þann draum áður en við fórum af stað með eineltisátakið okkar að hrista hreinlega þjóðina aðeins saman um sterkt heilbrigðiskerfi. Okkur langaði svo að vera með þjóðarvitundarvakningu þar sem skilaboðin væru: hættum að rífast og förum að byggja upp,“ segir Elísabet. „Ef við hugsum það rökrétt þá erum við bara eins og lítil gata á Manhattan, 300 þúsund manna þjóð. Við getum alveg græjað þetta ef viljinn er fyrir hendi. Viljinn er hjá öllum að búa í landi þar sem er hugsað vel um gamla fólkið okkar og þá sem eru veikir. Börnin í landinu. En einhvern veginn náum við að gera þetta svo flókið en þetta er svo einfalt,“ segir Guðný og heldur áfram: „Það hefur aldrei verið settur eins mikill peningur í heilbrigðiskerfið eins og árið 2015, en samt er þetta svona.“

„Það er vegna þess að kerfið hefur verið í svo miklu svelti lengi og margt sem hefur setið á hakanum. Þetta verður að vera í lagi – því ef þjóðin sameinast ekki um að setja heilbrigðismál í fyrsta sæti þá á hún ekki neitt. Heilbrigður maður á þúsund óskir en veikur maður eina,“ segir Elísabet.



Reiknað með framlögum 

Árið 2013 söfnuðu þær fyrir sérstakri bráðageðdeild á Landspítalann og fundu þá sterkt fyrir þessu. „Við ætluðum að gera þessa deild huggulega en þá þurftum við að byrja á að kaupa svona hluti eins og sprinklerkerfi. Það voru alls konar hlutir sem sjást ekki en þurfa að vera í lagi. Það fór fullt af peningum í þannig hluti,“ segir Guðný. „Guðný átti einmitt fræga setningu þar þegar hún sagði að þeir myndu ekki einu sinni fá að opna pitsustað þarna. Það er bara þannig ástand á Landspítalanum í dag að það yrði ekki opnaður pitsustaður þar.“

Stundum hefur verið talað um að það ætti að vera hlutverk ríkisins að endurnýja tæki á spítalanum en oftar en ekki er það fyrir tilstilli safnana sem slík tæki eru keypt. „Ef grunnstoðir í heilbrigðiskerfinu væru í lagi og væru sterkar þá er ekkert mál að safna fyrir einu og einu tæki. Það er bara svo mikið í rúst undir þessu öllu,“ segir Elísabet.

„Auðvitað er það pirrandi. Það er líka frústrerandi fyrir okkur og aðra sem standa fyrir söfnunum til að styrkja heilbrigðiskerfið að það er nánast reiknað með svona framlögum. Við viljum ekki að það sé gert ráð fyrir að við söfnum 50-100 milljónum á ári. Það á ekki að vera þannig í svona ríku samfélagi.“

Þjóðin vill heilbrigðismálin í lag

„Við erum samt ekki að tala heilbrigðiskerfið niður, því það er þrátt fyrir allt frábært og fullt af góðum hlutum sem virka vel. Starfsfólkið er einstakt,“ segir Gróa. „En við teljum samt mikilvægt einmitt að sameinast um þetta verkefni að koma öllu í lag, það er svo lítið mál, við þurfum bara að henda okkur í það. Þjóðin öll vill að þessi mál séu í lagi.“

Árið 2013 ákváðu þær að hafa átakið á tveggja ára fresti og sjá fyrir sér að hafa einnig sjóð sem væri hægt að veita úr minni fjárhæðir til fleiri málefna. „Núna býður Orkan upp á orkulykil með nafni Á allra vörum á. Þar fer ein króna af hverjum bensínlítra til okkar og svo fáum við 2.500 krónur þegar hver lykill hefur keypt 250 lítra. Þetta fer í sérstakan jólasjóð hjá okkur sem við ætlum að deila út um næstu jól til verðugs málefnis – og við hvetjum alla til að ná sér í Á allra vörum Orkulykil.“

„Þegar við svo við lítum til baka, er gaman að sjá breytinguna sem hefur orðið þegar góðum málum er komið á framfæri og fleiri og fleiri nota áhrif og kraft markaðssetningar í þeim efnum. Það spretta nánast upp á hverjum degi ýmis góðgerðarverkefni og það er gott að sjá að við höfum haft áhrif þar líka.“

Greinin/fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 19. mars.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×