Golf

Ólafía Þórunn: Síminn minn er að springa

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir slær í Abú Dabí í dag.
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir slær í Abú Dabí í dag. Mynd/LET/Tristan Jones
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir var í sviðsljósinu eftir annan daginn á Fatima Bint Mubarak mótinu í Abú Dabí og ekki af ástæðulausu.

Frábær spilamennska hennar fyrstu tvo dagana hafa skilað henni skori upp á þrettán högg undir pari og þriggja högga forskoti á toppnum. Hún lék á sex höggum undir pari í dag.

„Þetta var mjög skemmtilegur dagur. Ég var að slá ótrúlega nálægt og gera allt vel. Ég var að koma mér í færi og ég nýtti mörg færi. Það voru meira að segja færi sem ég hefði getað nýtt betur. Þetta var geggjaður dagur,“ sagði Ólafía Þórunn í viðtali á heimasíðu LET Evrópumótaraðarinnar.

„Nú verð ég bara að halda mér rólegri og reyna að halda áfram með sama plan og hina dagana,“ sagði Ólafía Þórunn. En hefur pressan að vera efst ekki mikil áhrif á hana?

„Það er bara undir mér sjálfri að láta það hafa áhrif á mig. Ég gerði bara allt nákvæmlega eins og í gær og var ekkert að setja meiri pressu á sjálfan mig,“ sagði Ólafía Þórunn.

„Ég var eiginlega ekkert stressuð og það kom mér eiginlega bara á óvart hvað það var gaman. Allir á Íslandi eru spenntir yfir þessu og síminn minn er að springa,“ sagði Ólafía létt.

„Ég hugsaði fyrst og fremst um það að halda ró minni. Mér tókst það sem var mjög gott,“ sagði Ólafía Þórunn.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×