Lífið

Er að safna fyrir trommusetti

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Íslhildur komin með kjuðana. Nú er bara eftir að útvega settið.
Íslhildur komin með kjuðana. Nú er bara eftir að útvega settið. Vísir/Anton
Íshildur Rún er að verða 11 ára núna í apríl. Hún hefur verið að leika lítið hlutverk undanfarið í leikriti sem heitir heitir Old Bessastaðir og er sýnt í Tjarnarbíói og er beðin að segja aðeins frá því.

 Mitt hlutverk er að leika eina persónu í leikritinu þegar hún var lítil en hver og einn áhorfandi getur eiginlega samt ákveðið fyrir sig hvað ég á að tákna.

Er skemmtilegt að vera í svona leikriti?

Já, mjög og líka gaman að vera í svona félagsskap og kynnast skemmtilegu fólki.

Færðu eitthvað greitt fyrir að koma fram?

Já, ég fæ ágætis laun.

Hvað ætlar þú að gera við peningana?

Ég hef verið að safna mér fyrir trommusetti og hugsa að ég setji peninginn í þann sjóð.

Ertu langt komin að safna?

Eftir þetta verkefni er ég nokkuð langt komin held ég. Svo á ég bráðum afmæli þá er aldrei að vita hvað gerist.

Af hverju trommur?

Ég er í stelpuhljómsveitinni Meisturunum í Þingeyjarsveit og þar spila ég á trommur og finnst það gaman.

Ertu stundum fyrir norðan? Já, ég var í Þingeyjarskóla í fyrravetur. Þá spiluðum við á litlu jólunum og þorrablóti skólans.

Hvernig finnst þér skemmtilegast að leika þér?

Mér finnst mjög gaman að spila fótbolta og vera með vinkonum mínum og baka eða spila eða eitthvað þannig.

Í hvaða skóla ertu núna og hvert er uppáhaldsfagið þitt þar?

Vesturbæjarskóla og íþróttir eru uppáhaldsfagið mitt.

Hvað langar þig að verða þegar þú verður stór?

Mig langar að verða leikkona, ljósmyndari, læknir, sundþjálfari og kennari.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×